Jón Páll: taka verður hertar aðgerðir alvarlega

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segir að verið sé að fylgja ráðleggingum frá þeim sem best mega vita um hvaða viðbrögð eiga við í þeirri snúnu stöðu sem komin er upp við utanvert Djúp vegna kórónaveirunnar.

„Það er gott að vita til þess að við erum með gott og hæft fólk, bæði hjá viðbragðsteyminu fyrir sunnan og hér í héraði sem er að fylgja þessum málum fast eftir. Ég hef sjálfur fylgst með því starfi sem þarna á sér stað og ég er þess fullviss að við erum að fylgja leiðbeiningum frá okkar besta fólki. En er ljóst að þessar aðgerðir missa marks ef við tökum þær ekki alvarlega og því er gríðarlega mikilvægt að við gefum okkur tíma til að skoða þessi tilmæli vandlega og velta fyrir okkur hvernig við viljum og ætlum að haga okkur samkvæmt þeim næstu daga og vikur.“

Kvíði eru eðlileg viðbrögð

„Það er eðlilegt að fyrir suma og jafnvel flesta að finna fyrir kvíða þegar fréttir berast um hertar aðgerðir. Það er mikilvægt að við byrgjum ekki þessar tilfinningar inni og finnum þeim leið með því að ræða þær við okkar nánustu. Hinir daglegu upplýsingafundir þremenninga er líka góður vettvangur til að fá nýjustu upplýsingar, sveitarfélögin eru flest öll með ítarlegar upplýsingasíður og svo eru frábærar upplýsingar á www.covid.is. Kannski er svo mikilvægast að taka regluleg Covid ‚frí‘ og njóta samvista fjölskyldunar án allrar truflunar frá þessum mikla vágesti.“

 

Að lokum segir Jón Páll að það sé líka mikilvægt að láta sig hlakka til þess tíma þegar þetta verður allt að baki. Þetta sé tímabundið ástand.

 

„þegar við erum kominn í gegnum þetta bíður okkar björt framtíð. Hér í Bolungarvík, á Vestfjörðum og á landinu öllu! Vestfirska vorið bíður bak við fjöllin fallegu með bjartri sumarnótt sem við eigum öll eftir að njóta saman. Það verður nú eitthvað!“

 

DEILA