Háskólasetrið fær rannsóknarstyrk frá NordForsk

Viðfangsefni rannsóknarinnar er seigla lítilla samfélaga á Norðurlöndunum vegna loftslagsbreytinga. Ljósmynd: Andres Peters.

Í byrjun apríl bárust þær ánægjulegu fréttir að rannsóknarverkefni sem Háskólasetur Vestfjarða tekur þátt í hafi hlotið styrk frá NordForsk stofnuninni sem er rekin á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Verkefnið sem Háskólasetrið tekur þátt í ber titilinn „Seigla lítilla samfélaga á Norðurlöndunum vegna lofstlagsbreytinga“ og hefst það í janúar 2021. Verkefnið er hluti af kalli NordForsk undir yfirskriftinni „Norrænt samstarf um samfélagslegt öryggi í ljósi yfirvofandi hnattrænna og staðbundinna breytinga“.

Tveir rannsóknaraðilar frá Háskólasetrinu taka þátt, þau Matthias Kokorsch, fagstjóri í sjávarbyggðafræði og Uta Reichardt, nýdoktor við Stofnun Sæmundar fróða á sviði sjálfbærrar þróunar við Háskóla Íslands. Matthias mun fást við þann hluta rannsóknarinnar sem snýr að samfélagslegri seiglu og Uta mun fást við þann hluta sem snýr að náttúruvá, áhættumati og seiglu innviða. Þess má einnig geta að þau Uta og Matthias hafa hannað nýtt námskeið sem tengist þessu efni, „Bjargráð við hamförum“ sem verður kennt á vorönn 2021 fyrir nemendur í Sjávarbyggðafræði og Haf- og strandsvæðastjórnun en verður einnig opið þátttakendum úr atvinnulífinu og frá háskólum.

Auk Háskólasetursins taka þátt í rannsóknarverkefninu stofnanir frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í verkefninu verður framkvæmd þverfræðilega rannsókn til að kanna hvernig ólíkar hættur hafa áhrif á samfélög á öllum Norðurlöndunum. Hætturnar sem fjallað er um tengjast allar beinum áhrifum loftslagsbreytinga. Einkum er um að ræða sjávarflóð, úrkomuaukningu, eldsvoða (sinueldar og skógareldar), hitastigsöfgar, aurskriður og snjóflóð, skyndiflóð í ám og lækjum og óveður. Alls verða átta dæmi í fimm löndum tekin til skoðunar, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Íslandi og Færeyjum. Rannsóknin mun fást við spurningar á borð við það hvernig lítil samfélög í dreifðum byggðum fást við mótlæti og byggja upp getu til að fást við það. Einnig verður skoðað við hvaða aðstæður þessi samfélög þurfa aðstoð frá opinberum stofnunum og borgaralegum samtökum. Með þetta að leiðarljósi verður þróaður rammi sem getur gagnast til að miðla upplýsingum á milli samfélaga sem búa við náttúruvá og til yfirvalda sem bera ábyrgð á öryggi og getu samfélaganna til að takast á við ólíkar vár af völdum loftslagsbreytinga. Ramminn mun veita samfélögunum og yfirvöldum tækifæri til að vinna saman að verkefnum er varða fyrirbyggjandi aðgerðir, viðbrögð og uppbyggingu. Allt þetta þarf að miða að því að verja samfélögin gagnvart vá og hamförum.

DEILA