Engin ný smit síðasta sólarhring

Í gær voru engin ný smit greind á Vestfjörðum. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hve mörg sýni frá Vestfjörðum voruð rannsökuð. Alls hafa verið greind 96 smit í umdæminu frá upphafi. Ellefu einstaklingar fengu bata á síðustu tveimur dögum og eru virk smit nú 63, öll á norðanverðum Vestfjörðum. Samkvæmt þessu hafa 32% þeirra sem hafa verið greindir fengið bata. Þá eru 90 einstaklingar í sóttkví.

Rétt er þó að geta þess að ekki liggja fyrir niðurstöður rannsókna á sýnum sem tekin voru í gær. Þeirra er að vænta á morgun.

Í gildi eru reglur um takmörkun fjölda einstaklinga í hóp að hámarki 5 manns, nema ef um er að ræða fjölskyldu sem býr á sama heimili. Þetta á við um norðanverða Vestfirði, Bolungarvík, Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp.

Þessi fyrirmæli ganga lengra en annars staðar á landinu og gilda til og með 26. apríl nk.

Þessum takmörkunum verður aflétt í Dýrafirði, Önundarfirði, Súgandafirði og Súðavíkurhreppi frá og með 27. apríl nk. Á Ísafirði, Hnífsdal og Bolungarvík munu hertu reglurnar gilda lengur.

DEILA