Covid19: 56 smitaðir á Vestfjörðum

Covid-smitum fjölgaði um sjö síðasta sólarhring. Smituðum fjölgaði um  2 á Ísafirði, 4 í Bolungarvík og einn í Súðavík. Alls eru nú skráð 56 smit á Vestfjörðum.

Einstaklingum í sóttkví fjölgaði um 16 og eru nú samtals 339. Langflestir eru í Bolungarvík eða 242.  Af þeim 56 sem hafa verið greindir með covid-19 hafa fjórir náð bata. Enn bíður nokkur fjöldi sýna niðurstaðna, en í dag voru tekin samtals 77 sýni til rannsóknar.

Þetta kemur fram í tilkynningu Lögreglunnar á Vestfjörðum.

Í Ísafjarðarbæ eru smitin alls 22 og greinast á byggðarlög þannig að 15 eru á Ísafirði, 4 í Hnífsdal 1 á Flateyri og 2 á Þingeyri.

Flest eru smitin í Bolungavík og  eru þau orðin 30 talsins og fjölgaði um 4 frá deginum áður.

Í Súðavík eru skráð 2 smit.  Á norðanverðum Vestfjörðum eru skráð 54 af 56 smitum á Vestfjörðum. Eitt er á Hólmavík og annað á Reykhólum.

Skráning smita fer eftir lögheimili hins smitaða, þótt smitið hafi átt sér stað annars staðar, en lögreglan veitir ekki upplýsingar um þau tilvik.

Tekin voru 77 sýni á norðanverðum Vestfjörðum og hafa þau aldrei verið fleiri.