Covid 19: tvö ný smit í Bolungavík

Tvö ný smit greindust í Bolungavík frá því í gær samkvæmt því sem fram kemur hjá Lögreglunni á Vestfjörðum. Segir hún að einstaklingarnir hafi báðir tengsl við hjúkrunarheimilið Berg. Eru greind smit 74 á Vestfjörðum samkvæmt tölum lögreglunnar en eru 73 á upplýsingavefnum covid.is.

Þá segir í færslu lögreglunnar  að „umrædd talning byggir á lögheimilisskráningu viðkomandi, sem kann að dvelja utan umdæmisins. Þannig er því t.a.m. háttað með hið nýskráða tilvik í Vesturbyggð og hið sama á við um skráða tilvikið í Hólmavík/strandir. Umræddar tölur eru gefnar út í því augnamiði að almenningur geti fylgst með útbreiðslu og þróun smita hér á Vestfjörðum.

Ljóst er að smitin eru í vexti samanber neðangreinda töflu. Eins og staðan er í dag er sjúkdómurinn bundinn við norðanverða Vestfirði. Engin virk smit eru í Reykhólahreppi, Hólmavík, Árnesi og Kaldrananeshreppi og hið sama á við um Vesturbyggð og Tálknafjörð.“

Lögreglan gefur engar sambærilegar upplýsingar um þau smit sem skráð eru í öðrum sveitarfélögum, né í byggðakjörnum innan Ísafjarðarbæjar svo sem á Flateyri, Þingeyri og í Hnífsdal.