Bolungavík: vilja flýta framkvæmdum vegna covid19

Grunnskóli Bolungavíkur.

Bæjarráð Bolungavíkur hefur samþykkt minnisblað  sem Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri lagði fram, yfir framkvæmdir sem mætti vinna á næstunni. Eru það viðbrögð sveitarfélagsins við samdrætti í efnahagslífinu vegna covid 19 veirunnar.

Í minnisblaðinu segir að allra leiða verði leitað til að flýta þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í 5 ára framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins og hægt er að hefja framkvæmdir strax á þessu ári.

Helstu framkvæmdir sem hægt er að flýta:

Grunnskólinn, þakviðgerð

Aðalstræti 20-22, þakviðgerð og málun

Sundlaug/Íþróttamannvirki, ýmsar lagfæringar

Ráðhús, múrviðgerðir og málun

Vatnsveitumál, dælur, forðatankur og tengingar

Bolungarvíkurhöfn, rafmagn endurnýjað á Lækjarbryggju og flotbryggjum

Bolungarvíkurhöfn, Lækjarbryggja viðgerð

Gatnaframkvæmdir, endurnýjun lagna, malbikun og gangstéttar

Opin svæði, fá fyrirtæki og íbúa til samstarfs við fegrun opinna svæða og nánasta umhverfis í sveitafélaginu.

Þá voru samþykktar tillögur um:

að hafin verði vinna við að stofna fasteignafélag á vegum Bolungarvíkurkaupstaðar með það að markmiði að nýta fyrirliggjandi fasteignir í eigu sveitarfélagsins til að útbúa allt að 20 nýjar íbúðir í Bolungarvík á næstu 3 til 5 árum. Heildarumfang þessa
fasteignaverkefnis er allt að 500 m.kr.

hefja vinnu við að stofna þróunarfélag um uppbyggingu þjónustu fyrir ferðamenn á Bolafjalli og í Ósvör, tengt húsnæðisáætlun. Óskað verður eftir stuðningi frá Sóknaráætlun Vestfjarða til að koma að þróunarfélaginu.

Á næstu fundum bæjarráðs verður gengur frá breytingu á framkvæmdaáætluninni fyrir yfirstandandi ár 2020.

DEILA