Aðgerðir Ísafjarðarbæjar

Kæru íbúar Ísafjarðarbæjar

COVID-19-faraldurinn sem nú geysar mun sennilega seint líða okkur úr minni en við erum sannarlega að upplifa skrítið ástand í samfélaginu okkar og raunar í heiminum öllum. Það er ljóst að áhrif faraldursins kalla á aðgerðir í samfélaginu öllu. Segja má að veiran stjórni í raun flestu í okkar daglega lífi í þessa dagana.

Við þessar aðstæður er afskaplega mikilvægt að við virðum og fylgjum fyrirmælum stjórnvalda í einu og öllu. Eins og þið vitið var fyrir nokkru hert á samkomubanni hjá okkur og miðast það nú við hámark fimm manns. Þetta er vissulega erfitt í útfærslu víða og sérstaklega hjá mörgum fyrirtækjum. En við þessar aðstæður verðum við öll að axla ábyrgð og með því að virða fyrirmælin erum við jafnframt að vernda okkar viðkvæmustu hópa fyrir smiti. Stöndum saman um þetta og þá komumst við fyrr í gegnum faraldurinn og áhrif og afleiðingar honum samfara.

Ísafjarðarbær hefur lagt fram aðgerðaráætlun vegna COVID-19 sem kynnt hefur verið fyrir bæjarfulltrúum. Í henni er að finna aðgerðir í 11 liðum sem fyrstu skref sveitarfélagsins til að bregðast við ástandinu. Í áætluninni má finna aðgerðir sem snúa m.a. að: Frestun og leiðréttingu gjalda, stofnframkvæmdum á ýmsum sviðum, viðhaldsframkvæmdum, átaki í atvinnumálum og flýtingu verkefna á vegum hins opinbera. Mikilvægt er að hafa í huga að aðgerðaráætlunin er lifandi plagg og mun taka breytingum út frá því hversu lengi ástandið varir og hverjar afleiðingarnar verða á samfélagið okkar.

Ég vil líka nota tækifærið og hvetja ykkur til að fylgjast með á heimasíðu Ísafjarðarbæjar www.isafjordur.is en þar er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar í tengslum við COVID-19. Þessar upplýsingar eru stöðugt uppfærðar.

Að lokum langar mig að segja þetta; Ísafjarðarbær er ekkert annað en fólkið sem þar býr og í þessum aðstæðum er mikilvægt að við stöndum saman og styðjum hvert annað. Við munum sigrast á þessum erfiðleikum í sameiningu og mikilvægt að vera bjartsýn og gera það besta úr erfiðri stöðu. Vorið er handan við hornið og sumarið og tökum við því fagnandi.

Gleðilega páska!

Birgir Gunnarsson
Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar

 

DEILA