Súðavík: vilja hraða leyfisveitingum vegna kalkþörungaverksmiðju

Bragi Thoroddsen, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps segir að sveitarstjórnin hafi lagt á það ríka áherslu á fundi sínum á föstudaginn í síðustu viku að stjórnvöld hraði því að afgreiða skipulagsmál og leyfavinnu vegna kalkþörungaverksmiðjunnar í Álftafirði.

Bragi segir að ríkisstjórnin hafi  þann 12. mars sl. óskað var eftir því að fá frá sveitarfélögum um land allt tillögur að verkefnum sem áformað væri að ráðast í á næstunni. En vegna niðursveiflunnar í hagsveiflunni og svo  afleiðingar af kórónaveirunni í kjölfarið kappkostar ríkisstjórnin að koma af stað nýjum verkefnum sem skapa mega verðmæti og atvinnu. „Ég lagði það til við Vestjarðastofu með greinargerð að allt kapp yrði lagt á  að afgreiða skipulagsmál og leyfavinnu vegna kalkþörungaverksmiðjunnar í Álftafirði. Við ætlum að fá afstöðu stjórnvalda til þess hvort farið verði að tillögum ríkisstjórnar um að einfalda alla afgreiðslu leyfa og undirbúningsvinnu við framkvæmdir sem taldar eru mikilvægar. Á það bæði við um atvinnuuppbyggingu og svokallaða uppbyggingu innviða.“

Tveggja ára töf opinberra stofnanna

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri íslenska kalkþörungafélagsins hf, sem áformar að reisa nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík sagði í samtali við Bæjarins besta í gærkvöldi að uppbyggingin hefði nú þegar tafist um tvö ár vegna hægagangs í stofnunum ríkisins.

Er Halldór þar að vísa til Skipulagsstofnunar ríkisins og Orkustofnunar og segir að beðið hafi verið eftir umsögn Orkustofnunar í heilt ár um frummatsskýrslu um kalkþörunganámið í Ísafjarðardjúpi.  Loksins tókst að ljúka við matsskýrsluna og var hún send Skipulagsstofnun síðastliðið vor. Stofnunin hefur ekki enn afgreitt málið þrátt fyrir að vera komin langt fram úr lögboðnum frestum. Að sögn Halldórs er vonast eftir því að Skipulagsstofnun ljúki afgreiðslunni í næstu viku. Ekki verður Björninn unninn þótt Skipulagsstofnun hafi lokið sínum þætti heldur fer þá málið aftur til Orkustofnunar sem gefur út framkvæmdaleyfið. Var á Halldóri Halldórssyni að heyra að ekki væri á vísan að róa með skjóta afgreiðslu Orkustofnunar.

Verksmiðjan í Súðavík mun vinna úr 120 þúsund tonnum af kalkþörungum á ári. Stofnkostnaður er um 3  – 5 milljarðar króna. Framleiðslan er selt úr landi og skapa nýjar gjaldeyristekjur. Gert er  ráð fyrir 9000 fermetra verksmiðjuhúsi, orkuþörfin er um 10 MW og 25-30 bein störf skapast. En með óbeinum störfum og  þjónustu er talið í áætlunum KMPG frá október 2017 að allt að 30 bein störf  og 12 óbein störf verði til. Alls er talið að 90 íbúar hafi afkomu sína af verksmiðjunni. Miklar hafnarframkvæmdir eru komnar á framkvæmdaáætlun í Súðavík vegna Kalkþörungaverksmiðjunnar.

Upphaflega var gert ráð fyrir að verksmiðjan tæki til starfa síðla árs 2020.

 

DEILA