Strandagangan fer fram laugardaginn 7. mars 2020.

Strandagangan er almenningsganga fyrir fólk á öllum aldri, jafnt byrjendur sem lengra komna og er hluti af Íslandsgöngumótaröðinni. Þetta er 26. árið í röð sem gangan er haldin en fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995.

Í boði eru fjórar vegalengdir, 1 km, 5 km, 10 km og 20 km, og þeir sem ljúka 20 km göngu fá stig í stigakeppni Íslandsgöngunnar.

20 km. fyrir 13 ára og eldri
Skráningargjald 5.000 kr. til og með 1. mars, eftir það hækkar skráningargjald í 8.000 kr.

10 km. ekkert aldurstakmark
Skráningargjald 4.000 kr. til og með 1. mars, eftir það hækkar skráningargjald í 6.000 kr.

5 km. ekkert aldurstakmark
Skráningargjald 3.000 kr. til og með 1. mars, eftir það hækkar skráningargjald í 4.000 kr.

1 km. fyrir 10 ára og yngri
Skráningargjald 1.000 kr.

Gangan fer fram á skíðasvæði Skíðafélags Strandamanna í Selárdal á Ströndum og er startað í 5, 10 og 20 km vegalengdir kl. 12:00. Start í 1 km vegalengd og forstart í 20 km þ.e. þau sem ekki treysta sér til að ganga 20 km á skemmri tíma en tveimur klukkustundum eiga þess kost að byrja gönguna hálftíma fyrr, eða kl. 11:30.
Þátttakendur sem byrja fyrr fá tímann sinn skráðan en geta ekki unnið til verðlauna/stiga í Stranda-/Íslandsgöngunni nema að skráðir keppendur séu þrír eða færri.

Skíðaleikjadagur í Selárdal
Skíðaleikjadagurinn verður haldinn í Selárdal sunnudaginn 8. mars kl. 11-13 daginn eftir Strandagönguna eins og verið hefur undanfarin ár. Á skíðaleikjadeginum er öll keppni lögð til hliðar og geta börn á öllum aldri skemmt sér saman í skemmtilegustu skíðaleikjunum og í þrautabrautum við allra hæfi. Leikjunum verður stjórnað af skíðagönguþjálfurum Skíðafélags Strandamanna.
Fyrir fullorðna fólkið ætlum við að bjóða upp á skíðaferð fram á Selárdal að hinu mikilfenglega Þjóðbrókargili og jafnvel lengra inn dalinn.
Þegar skíðaferðinni og skíðaleikjunum lýkur verður boðið upp á pizzahlaðborð í skíðaskálanum.

Þátttökugjald fyrir skíðaleikjadaginn/skíðaferð og pizzahlaðborð er 1.500 kr fyrir börn og 2500 fyrir fullorðna.

DEILA