Strandabyggð brothætt byggð

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Byggðastofnun hefur samþykkt umsókn frá Strandabyggð um þátttöku í átakinu brothætt byggð árin 2020 – 2024. Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur valið Jón Jónsson sem fulltrúa sinn í verkenisstjórn og Esther Ösp Valdimarsdóttir og Angantýr Ernir Guðmundsson sem  fulltrúa íbúa.

Að sögn Sigríðar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu hefur Strandabyggð átt umsókn inni frá árinu 2015 og hefur nú fengið jákvæð svör. Vestfjarðastofa annast utanumhald og tekur að sér að annast verkefnisstjórn verkefnisins.

Útfærsla verkefnisins er í vinnslu hjá Byggðastofnun, þar með talið hver meginarkmiðið eigi að vera.

Árneshreppur (2017 – 2021) og Öll vötn til Dýrafjarðar á Þingeyri (2018 – 2022) eru einnig skilgreind sem brothættar byggðir hjá Byggðastofnun og áður var Bíldudalur (2013 – 2016) þar, en var útskrifaður fyrir nokkru eftir að áhrifa laxeldisins fór að gæta á staðnum. Fjögur önnur þorp annars staðar á landinu eru einnig brothættar byggðir.

Markmiðið með verkefninu Brothættum byggðum er m.a. að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Hugmyndin var frá upphafi sú að með verkefninu á Raufarhöfn yrði til aðferð eða verklag sem hægt væri að nota á fleiri stöðum sem stæðu frammi fyrir svipuðum vanda.

Settar eru á fót verkefnisstjórnir fyrir hvert byggðarlag. Í þeim sitja fulltrúar Byggðastofnunar, viðkomandi sveitarfélags, landshlutasamtaka og atvinnuþróunarfélags og loks tveir fulltrúar íbúa. Aðferð verkefnisins byggist á að halda tveggja daga íbúaþing þar sem rædd er staða byggðarinnar og leiðir til úrlausna. Á íbúaþinginu leggja íbúarnir sjálfir til umræðuefni og raða viðfangsefnunum eftir mikilvægi. Framhald verkefnisins byggir á niðurstöðum íbúaþingsins og eru íbúar upplýstir um hvernig skilaboð þingsins eru höfð til hliðsjónar og málum fylgt eftir, t.d. með því að kynna áherslur íbúa fyrir ríkisvaldi og stofnunum. Stefnumótun með framtíðarsýn og markmiðum fyrir byggðarlagið byggir á niðurstöðum íbúaþings og stöðugreiningu fyrir byggðarlagið. Stefnumótunin er síðan kynnt á íbúafundi. Íbúafundir eru haldnir árlega til að fara yfir stöðu verkefnisins.

 

 

 

DEILA