Hafsjór af hugmyndum á bakvið tjöldin

Nýsköpunarkeppnin “Hafsjór af hugmyndum” hefur vakið athygli síðastliðnar vikur og því lék BB forvitni á að vita meira um verkefnið og hverjir standa að baki því. Rætt var við Guðrúnu Önnu Finnbogadóttur verkefnastjóra hjá Vestfjarðastofu en hún hefur yfirumsjón með verkefninu sem Sjávarútvegsklasi Vestfjarða stendur að.

Þegar farið er af stað í svona verkefni er mikilvægt að heildarmyndin sé góð og allt heildarútlitið hannað og unnið af fagfólki, að sögn Guðrúnar Önnu.

Fyrirtækið Marta Sif ehf hafði yfirumsjón með hönnun og útliti á kynningarefninu fyrir “Hafsjó af hugmyndum”. Eigandinn Marta Sif er með BA gráðu í vöruhönnun frá Design Academy Eindhoven í Hollandi en hún býr á Ísafirði ásamt fjölskyldu. Það var spennandi áskorun fyrir hana að taka að sér verkefnið þar sem hún er alinn upp í Reykjavík og hafði litla innsýn í íslenskan sjávarútveg.  Það var svo aftur kostur þar sem markmiðið með verkefninu er að ná til breiðs hóps og hvetja frumkvöðla og háskólanema til nýsköpunar og kynna fyrirtækin í Sjávarútvegsklasa Vestfjarða fyrir öllum til að kveikja nýjar hugmyndir.

Marta Sif er einnig einn af stofnendum fyrirtækisins Litla Sif sem hefur vakið athygli fyrir framleiðslu á vörum úr endurnýttum textíl.

Kynningarmyndböndin voru unnin af Ásgeiri Þrastarsyni sem starfar hjá Gústi Productions. Fyrirtækið er starfrækt á Ísafirði og leggur áherslu á að fanga augnablikið hvort sem er í mynd eða á myndbönd.  Gústi Productions tekur að sér að gera kynningarefni fyrir fyrirtæki auk þess að hafa séð um kynningarefni fyrir “Aldrei fór ég suður” og “Eystnaflug”. Ísfirðingarnir Ágúst Atlason og Ásgeir eru miklir reynsluboltar og hefur vinnan með þeim í þessu verkefni verið mjög skemmtileg og það er ómetanlegt að hafa fyrirtæki á Vestfjörðum með þessa þekkingu.

Til að fá réttu stemminguna í myndböndin var leitað til ísfirska tónlistarmannsins Andra Péturs Þrastarsonar sem samdi lagið “Undir stýri” sem hljómar á kynningarmyndböndunum um fyrirtækin, það má nefna að hann er unnusti Mörtu Sifjar.

Það er gaman að verkefnið er allt unnið af fyrirtækjum á Vestfjörðum og ómetanlegt fyrir okkar samfélag að búa yfir fjölbreyttri þekkingu. Við stöndum vel á öllum sviðum í framleiðslu sjávarafurða, myndbanda og á sviði hönnunar og tónlistar og því hvet ég alla til að skoða hvað fyrirtækin á heimaslóð hafa upp á að bjóða.

Hér er hægt að sjá “trailerinn” fyrir “Hafsjó af hugmyndum”: https://www.youtube.com/watch?v=Zk6dXgYxQy0

Nánar um verkefnið:  https://www.vestfirdir.is/is/verkefni/hafsjor-af-hugmyndum

 

DEILA