Framtíðarskipulag útivistarsvæða í Tungudal

Þriðjudaginn 10. Mars síðastliðinn bauð Ísafjarðarbær til kynningafundar á tillögum um framtíð skipulags útivistarsvæða okkar í Tungudal. Fram komu á fundinum margar mjög spennandi hugmyndir að uppbyggingu á svæðinu en einnig voru þar tillögur að lagfæringum á öðrum sem nú þegar er til staðar á svæðinu. Ef frá eru taldar hugmyndir um breytingar á skíðasvæðum okkar í Tungudal og Seljalandsdal, þá er ég þeirrar skoðunar að það sem kynnt var séu mjög flottar hugmyndir og bjóði upp á mjög svo fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði fyrir okkur öll.

 

Líkt og áður kom fram er ég ekki hrifinn af tillögum um breytingar á skíðasvæðum okkar og ætla ég að fara fyrst yfir það sem ég tel ekki gott í þeim hugmyndum. Á eftir mun ég svo gera grein fyrir mínum tillögum að breytingum á svæðunum.

Vegurinn að svæðunum.

Langt er til að gerður verði nýr vegur frá gönguskíðaskálanum á Harðarskálaflötinni á Seljalandsdal og upp á Háubrún, inn á flötina undir Miðfelli. Sú veglagning er alls ekki svo óskynsamleg því í snjólitlu árferði myndi sá vegur auðvelda okkur að komast upp í snjó. Gallinn við að þurfa að fara upp á Seljalandsdal er hinsvegar að vegurinn frá Grænagarði og upp á Harðarskálaflötina safnar á sig mjög miklu snjómagni auk þess sem hann fer um þekkt snjóflóðasvæði. Það mun því verða mjög kostnaðarsamt að halda vegi þessum opnum en ég hef heyrt tölur frá 80.000 til 160.000 kr fyrir að opna veginn einu sinni. Vegna snjóflóðahættunnar mun svo hreinlega ekki vera leyfilegt að fara um veginn á öðrum tímum.

Byrjendalyfta færð upp undir Miðfell.

Byrjendalyftan eins og hún er í dag í botni Tungudals er ekki alveg sú þægilegasta vegna meðal annars hliðarhalla í brekkunni við hana.  Þessi nýja staðsetning sem lögð er til bíður vissulega upp á nokkrar góða kosti, meira pláss í kringum hana og fjölbreyttari brekkur. Það hefur hinsvegar aldrei þótt mjög skynsamlegt að láta umferð þeirra sem eru að renna sér niður krossa lyftuspor og þar með leið þeirra sem lyftan er að draga upp.

 

Sandfellslyfta fjarlægð og notuð að hluta upp á Miðfell.

Í kynningu forstöðumans Skíðasvæða Ísafjarðarbæjar kom fram að lagt væri til að Sandfellslyfta yrði nýtt að hluta í lyftu frá endastöð Miðfellslyftu og upp á topp Miðfells. Þarna er vissulega um mjög snjóþungt svæði ræða en toppur Miðfellsins er mjög mjór og brekkur sem þarna fást stuttar og brattar. Þó vissulega geti verið gott skjól undir Miðfellinu þá getur vindur verið það mikill á toppnum að ekki er mögulegt að keyra lyftuna.

Með því að fjarlægja Sandfellslyftuna erum við að loka mjög víðáttumiklu og fjölbreyttu svæði með einhverjum skemmtilegustu brekkum landsins hvort heldur sem er fyrir keppnisfólk, utanbrautarskíðunn, bretti eða aðra sem gaman hafa af krefjandi brekkum.

 

 

 

 

 

 

Ný stólalyfta frá dalbotni upp á Miðfell.

Gert ráð fyrir að set verði upp ný stólalyfta sem nái frá botni Tungudals, u.þ.b. við neðri enda gilsins og upp á topp Miðfells og hægt verði að fara í á 2 stöðum. Annarsvegar við nýtt bílastæði á flötinni undir Miðfellinu og svo í dalbotninum. Gula línan sem sjá má á myndinni hér til hægri er tillaga að nýjum stórsvigsbakka sem koma á í stað þess sem í dag er niður af Sandfellinu. Leið þessi liggur af toppi Miðfells, fram niður háls þess og áfram niður í dalbotninn. Efsti hluti leiðar þessar er um 3 til 5 metrar á breidd, klettabelti er norðan við og mjög brött brekka sunnan við. Hér er því um að ræða alltof þrönga leið með miklum hættum beggja vegna. Ef gera ætti þessa leið að mögulegum keppnisbakka þyrfti annað hvort að fara í gífurlega uppfyllingu efnis til að breikka hana eða að ryðja til miklu efni í sama tilgangi. Framkvæmdir sem yrðu gífurlega kostnaðarsamar og erfiðar í framkvæmd. Í framhaldi af hálsinum tæki svo við langur og flatur kafli áður en komið er að brekku sem alla þá tíð sem ég man eftir verið mjög snjólítil, líka þegar nægur snjór hefur verið í öllum öðrum brekkum.

Hér er um að ræða lyftu sem er gífurlega kostnaðarsöm eða á bilinu 1 til 2 milljarðar króna og bætir afskaplega litlu við þær leiðir sem komnar eru án þessarar lyftu.

Hvað möguleika höfum við aðra?

Ég er þeirrar skoðunar að til þess að tryggja opnun skíðasvæða þurfum við að framleiða snjó. Til þess eru nokkrar leiðir færar.

Leið 1, Snjóframleiðslugámar.

Gámar þessir geta framleitt snjó í allt að +20°C til +25°C hita. Með 4 slíkum gámum er hægt að framleiða í 500 metra langa og 20 metra breiða brekku 25cm þykkt lag af snjó á 24 klst og kostar rafmagnið sem þarf í það um 165.000 kr. Það væri því hægt að opna byrjendasvæðið í Tungudal eftir 1 sólarhring í framleiðslu. 4 slíkir gámar kosta um 250 til 300 milljónir. Í Ástralíu er skíðalyfta sambærileg við byrjendalyftu okkar, yfir sumar tíman er meðal hiti upp á +15°C og er þessari lyftu haldi opinni allt sumarið með 1 svona gám. Með þessari lausn gætum við hvort heldur sem er haldið hluta bæði göngu og alpa svæðisins opnu allt árið eða ákveðið nákvæmlega hvaða dagur skuli vera fyrsti opnunardagur ársins og einnig hver skuli vera sá síðasti.

Leið 2, Snjóframleiðslubyssur.

Til að framleiða snjó með snjóframleiðslubyssum þurfum við frost að lámarki -2°C og rafmagn. Ein byssa er til nú þegar og til að hún vinni sem best þurfum við -12°C. Rafmagnið í hana kostar um kr. 20.000 á sólarhring og tæki það hana um 15 sólarhringa við bestu aðstæður að búa til snjó í sambærilegt svæði og gámarnir. Hægt er að minnka rafmagnskostnað slíkra byssa með því að koma fyrir uppistöðulóni fyrir vatnið að þeim í a.m.k. 100 metra hæð fyrir ofan þær og þá væri kominn nægilegur vatnsþrýstingur að byssunum til að þurfa ekki vatnsdælur við þær. Til leiðir til að auka afköst slíkra byssa, en eftir því sem fallið á vatninu útúr þeim er lengra, þeim mun meiri afköst gefa þær í minna frosti. T.d. ef þeim er komið fyrir efst í bröttum brekkum eða hreinlega uppi á staurum. Nýjar svona byssur kosta á bilinu 8 til 15 milljónir hver.

Leið 3, gírarfar eða úðarar.

Þessi leið er sú afkasta minnsta ef þeim sem lagðar eru hér til en jafnframt sú hagkvæmasta í rekstri. Í hana þurfum við aðeins uppistöðulón í lámark 100 metra hæð ofan við úðaranna og svo gírafa eða góða úðara. Eftir því sem frostið er meira og hæðin frá úðara niður á jörðu meiri þá verða afköst og árangur meiri. Eini framleiðslukostnaðurinn við þessa aðferð er aðeins launin við að skrúfa frá vatnskrananum. Kostnaðurinn við uppbyggingu svona kerfis yrði svipaður og við uppbyggingu á snjóbyssukerfi og stjórnast það af fjölda byssa eða úðara sem ákveðið er að setja upp. Líkleg tala gæti verið um 50 til 100 milljónir.

Leið 4, Artificial teppi.

Fyrir nokkrum árum spurðist ég fyrir um verð í Artificial teppi sem hægt er að skíða á allt árið um kring. Lausleg kostnaðaráætlun fyrir 40 metra breitt teppi frá háubrún og niður að byrjendalyftu var þá um 350 milljónir króna. Sú tala hefur sjálfsagt hækkað síðan um að minnsta kosti 25%. Þá er endingartími svona teppis algengur um 8 til 10 ár.

 

 

Möguleikar til sameiningar svæðanna.

Eitt helsta markmiðið með breytingum á skipulagi skíðasvæðanna er að sameina þessi 2 svæði í 1 og gera okkur þannig auðveldar fyrir að reka þau en einnig að komast í öruggari snjóalög. Mín skoðun er að framlögð tillaga uppfylli þær kröfur að mjög takmörkuðu leiti og kostnaðurinn við það óhóflega mikill.

Með framleiðslu snjós gætum við hæglega gert svæðin okkar einhver þau allra flottustu á landinu og á hagkvæman hátt tryggt opnunartímabil upp í 7 til 8 mánuði. Bæði á Seljalandsdal og í Tungudal höfum við mikið vatn sem við getum nýtt okkur til snjóframleiðslu og með góðri jarðvegsvinnu gætum við vel útbúið gott göngusvæði neðan við núverandi alpasvæði í Tungudal en þessi litli hringur á myndinni hér til hliðar er teiknaður um 2 km langur hringur sem lítið mál er að lengja í 3,5 til 5 km.

Við gætum einnig sett upp lyftu innan til við núverandi göngusvæði á Seljalandsdal og á mjög hagkvæman hátt framleitt snjó í bæði gönguhringinn þar og í þetta lyftusvæði. Lyfta þessi er um 500 metra löng og getur vel nýst bæði byrjendum og lengra komnum. Með þessari lyftu værum við komin með kjörna aðstöðu til að nýta okkur á virkum dögum og þegar færri eru að skíða. Kostnaður við að koma upp lyftu þarna má áætla að sé um 250 milljónir króna fyrir utan snjóframleiðslubúnað.

 

 

Lokaorð.

Ljóst er að ef við ætlum að halda uppi skíðaiðkun á norðanverðum vestfjörðum þá þurfum við að grípa til aðgerða. Óvissuástand eins og verið hefur undanfarna vetur gerir okkur það mjög erfitt fyrir að halda þessari frábæru fjölskyldu íþrótt á lífi. Miðað við snjóalög síðustu 5 til 10 ár er það mín skoðun að þær tillögur sem kynntar hafa verið af Ísafjarðabæ, dugi ekki til svo hægt sé að tryggja opnun skíðasvæðanna. Lykillinn að því að tryggja opnun skíðasvæðanna er að mínu mati að framleiða snjó á þau. Við erum lítið samfélag og þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti og þurfum að gæta þess að kostnaður við rekstur skíðasvæða og annara þátta samfélagsins, sé hóflegur. Stöðuleiki í opnun eykur nýtingu svæðisins og fjölgar þáttakendum í þessari frábæru útivist.

 

  1. Bæring Pálmason

Forfallinn áhugamaður um skíði og snjóframleiðslu.

DEILA