Daníel: Starfslok Guðmundar höfðu ekkert með snjóflóðin að gera

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir í færslu á Facebook að viðtal Mannlífs við Guðmund Gunnarsson hafi valdið honum ekki bara vonbrigðum og undrun heldur sé hann einnig leiður og úrræðalaus eftir lesturinn.

„Það að gera manni það upp að það sé bara ekkert mál að segja einstaklingi upp, sem fjárfest hefur í samfélaginu, til að svala eigin metnaði er eins langt frá því sem ég stend fyrir og ég hugsað mér. Þeir sem skipta mig máli, vita að svo er.

Starfslok Guðmundar höfðu ekkert með snjóflóðin á Flateyri og Súgandafirði að gera eða framgöngu hans í þeim málum. Það var skelfileg staða fyrir okkur bæjarfulltrúa og ekki síst íbúa Ísafjarðarbæjar, að missa bæjarstjórann rétt eftir snjóflóðin. Guðmundur óskaði sjálfur eftir að láta af störfum og vildi ekki starfa áfram. Honum leið ekki vel í starfi. Meirihlutinn fundaði með Guðmundi og lagði til lausnir svo Guðmundur fengist til að halda áfram. Allt kom fyrir ekki.

Við starfslok Guðmundar óskaði fráfarandi bæjarstjóri eftir trúnaði um orsakir starfsloka hans. Meirihlutinn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti það og hefur því lítið tjáð sig um málið. Hins vegar hefur Guðmundur ákveðið sjálfur að aflétta trúnaðinum án samráðs við þann sem Guðmundur óskaði sjálfur eftir að virti trúnað um málið, hans og fjölskyldu hans vegna. Kannski það sé mest lýsandi fyrir vandamálið í samskiptum meirhlutans við Guðmund Gunnarsson.“

Daníel segir að málið  hafi fengið á hann persónulega. „Það er bæði vond tilfinning að vera beittur órétti og skærum. Það mun þó vafalaust jafna sig.“

Færslunni lýkur Daníel með þessum orðum:

„Guðmundi og fjölskyldu óska ég velfarnaðar, gæfu og hamingju. Ég mun ekki tjá mig um málið frekar.“

DEILA