Vesturbyggð: aflagjald af eldisfiski hækkað

DCIM100MEDIADJI_0042.JPG

Vesturbyggð hefur hækkað aflagjald af lönduðum eldisfiski í höfnum sveitarfélagsins úr 0,6% af heildarverðmæti aflans í 0,7% og gildir hækkunin frá síðustu áramótum.

Arnarlax hf sendi bréf í desember síðastliðinn og óskaði eftir upplýsingum um afkomu Hafnarsjóðs Vesturbyggðar síðastliðin 5 ár og upplýsinga um almennar forsendur gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá á hverjum tíma. Sérstaklega var óskað upplýsinga um kostnað vegna veittrar þjónustu Hafnarsjóðs Vesturbyggðar við Arnarlax þannig að fyrirtækið gæti lagt mat á það hvort samræmi sé á milli þeirra gjalda sem höfnin innheimtir hjá fyrirtækinu og kostnaði af veittri þjónustu við fyrirtækið.

Í svarbréfi hafnarstjóra segir að á næstu 2 árum verði farið í framkvæmdir við Bíldudalshöfn sem kosti um 400 milljónir króna. Þá hafi Arnarlax óskað eftir annarri höfn norðan við núverandi hafnarsvæði og landfyllingum fyrir aukið athafnasvæði og kostnaður við þær framkvæmdir séu áætlaðar 400 milljónir króna. Vísað er einnig til annarra framkvæmda sem höfnin hafi farið í til þess að mæta óskum fyrirtækisins.

Er það mat hafnarstjóra að heildarframkvæmdir séu um 1,1 milljarður króna við Bíldudalshöfn og því til viðbótar framkvæmdir við Patrekshöfn fyrir 1,6 milljarð króna.

Hafnarstjóri vísar til ákvæða hafnalaga sem kveða á um að aflagöld skuli vera frá 1,25% til 3% af heildaraflaverðmæti. Aflagjölf af eldisfiski séu því aðeins 56% af lágmarksgjaldi eftir hækkunina í 0,7%. Arnarlax fær afslátt vegna mikils magns og að tekið er tillit til þess að tímafrekur og kostnaðarsamur framleiðsluferill á sér stað áður en fiskinum er landað, ólíkt því sem á við um hefðbundnar fiskveiðar.

Ekki var orðið við óskum fyrirtækisis um sundurliðaða afkomu tekna og gjalda vegna starfsemi Arnarlax heldur vísað almennt í ársreikninga hafnarsjóðs.

DEILA