Tillaga 12

Út er komin skýrsla, ekki sú fyrsta um málefnið og væntanlega ekki sú síðasta, þessarar skýrslu hefur verið beðið með óþreyju, ég beið að minnsta kosti spennt. Væri hugsanlega hægt að hnika til valdataumum og gera breytingar. Það var einkum og sér í lagi efniviðurinn í tillögu 12 sem vöktu þessa spennu hjá mér en vel má vera að í hinum tillögunum hafi leynst frumkraftar og byltingar en ég kýs að leiða það hjá mér að sinni.

Um er að ræða skýrslu starfshóps sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði og átti hann að endurskoða meðferð og ráðstöfun 5,3% aflaheimilda sem tekin eru til hliðar til að efla atvinnu og byggð í landinu, skýrsluna má nálgast hér:

https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=2761fd79-5705-11ea-945f-005056bc4d74

 

Tillaga 12 – Aukin fjölbreytni atvinnulífs í sjávarbyggðum

 

Tillaga 12 hljóðar svo í skýrslu starfshópsins:

„Heimilt verði að semja um nýtingu almenns byggðakvóta eða aflaheimilda vegna ónýttrar línuívilnunar til tilraunaverkefna um aukna fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða. Ráðuneytið geti falið Byggðastofnun eða öðrum opinberum aðila umsýslu með slíkum verkefnum.

Gerðir verði samningar milli ráðuneytisins, Byggðastofnunar, landshlutasamtaka og einstakra sveitarfélaga um verkefni til að auka fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæða.

Í slíkum samningum geta falist tilfærslur á aflaheimildum milli byggðarkjarna innan sama vinnusóknarsvæðis, enda sé sambærilegum verðmætum ráðstafað til að efla aðra atvinnustarfsemi í þeim byggðarkjarna sem heimildunum var úthlutað til.

Slíkir samningar skulu skilgreindir sem tilraunaverkefni til sex ára og ráðuneytið getur sett nánari reglur um hámarksfjölda slíkra verkefna næstu sex árin. Óháður aðili skal meta árangurinn af slíkum tilraunaverkefnum heildstætt í lok tímabilsins“

Samkvæmt orðanna hljóðan í fyrstu málsgrein leggur starfshópurinn til að hægt sé að nýta almennan byggðakvóta (og ónýtta línuívilnun) til að auka fjölbreytni atvinnulífs innan vinnusóknarsvæðis. Í stuttu máli þarf að gera samning um byggðakvótann til sex ára og skilgreina þarf tilraunaverkefnið. Í þriðju málsgrein kemur fram að um sé að ræða tilfærslur á aflaheimildum milli byggðakjarna innan sama vinnusóknarsvæðis og ráðstafa skal sambærilegum verðmætum til baka.

Þetta þýðir væntanlega að þar sem byggðakvóta Flateyringa hefur verið úthlutað til fyrirtækja á Suðureyri skuli þau fyrirtæki skila til Flateyrar verðmæti þeirra aflaheimilda sem þau fengu og íbúar þar geti nýtt þá fjármuni til annarrar atvinnustarfsemi. Velkist einhver í vafa um að byggðakvótar og línuívilnanir séu verðmæti má sjá í lokaorðum skýrslunnar að verðmæti þessara 5,3% aflaheimilda sem tekin eru til hliðar til að efla atvinnu og byggð í landinu eru frá 5,5 – 7,6 milljarðar.

Og að sama skapi er hægt að skilja tillöguna sem svo að Tálknafjarðarhreppur geti úthlutað sínum byggðakvóta til Odda á Patreksfirði sem er innan sama vinnusóknarsvæðis og Oddi skal þá reiða fram í staðinn verðmæti þess byggðakvóta sem Tálknafjarðarhreppur afhenti.

Þetta er að mínu viti ákaflega góð niðurstaða. Sjávarútvegsfyrirtækjum sem sannanlega eru á sama vinnusóknarsvæði eru tryggðar aflaheimildir, sem aftur tryggja hráefnisaðföng, sem aftur styrkja atvinnu á öllu svæðinu. Sveitarfélaginu/þorpinu sem hefur blætt svo áratugum skipti vegna afleiðinga kvótakerfis fá myndarlegan stuðning til að rétta úr kútnum og finna athafnagleði íbúa sinna nýjan farveg.

Síðan er slegið úr og í

Í skýringum með tillögunni er svo því miður slegið úr og í og erfitt að átta sig á hvað starfshópurinn er að fara. Rakin eru viðhorf með og móti sveigjanleika í meðferð byggðakvótans og svo koma skýringar á niðurstöðunni. Tökum þetta lið fyrir lið:

„Hér er lagt til að farið verði bil beggja og heimild veitt fyrir tilflutningi byggðakvóta innan vinnusóknarsvæða í þeim tilgangi að auka fjölbreytni atvinnulífs.“

Þetta er skýrt, byggðakvóti Flateyringa á ekki að fara til Vestmannaeyja eða byggðakvóti Tálknfirðinga til Grindavíkur, gott og vel. En hvað á að gera ef það er sáralítill eða enginn sjávarútvegur eftir á vinnusóknarsvæðinu, á þá að úthluta byggðakvóta að verðmæti kannski 50.000.000,- á eitt eða tvö skip, hvernig kemur það byggðarlaginu í heild til góða?

„Sveitarfélögum verði ekki veitt heimild til að leigja frá sér byggðakvóta og nýta fjármunina til óskyldra verkefna, heldur verði í ákveðnum tilvikum hægt að semja um eflingu sjávarútvegs á vinnusóknarsvæðinu í stað byggðarkjarnans. Íbúum byggðarkjarnans gefist þannig kostur á því að sækja vinnu við veiðar eða vinnslu í nálægum byggðarkjarna.“

Nú versnar í því, samkvæmt þessari málsgrein má ekki nýta fjármunina til óskyldra verkefna heldur aðeins til eflingar sjávarútvegs og það á vinnusóknarsvæðinu, ekki bundið við byggðakjarnann!! Hvað varð um möguleikana til að auka fjölbreytnina? Það á gefa íbúum kost á að sækja vinnu við veiðar og vinnslu í nálægum byggðakjarna ! Á að nota söluverð byggðakvótans til að skutla fólki milli fjarða, frekar en að byggja upp og styðja við frumkvöðla í þorpinu sem á byggðakvótann!

„Þannig geti sjávarútvegur eflst á vinnusóknarsvæðinu samhliða því að stuðlað verði að uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi.“

Hvað þýðir þetta? Þegar búið að kaup hópferðabíl fyrir Flateyringa til að vinna í Íslandssögu á Suðureyri segir að „stuðlað verði að uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi“ !! Í málsgreininni á undan segir undanbragðalaust að ekki megi nýta fjármunina til annars en til eflingar sjávarútvegs!!

Síðasta málsgreinin er sömuleiðis með mjög misvísandi skilaboð.

„Í þessu gæti falist að fyrirtæki sem njóta góðs af tilfærslunni leggi fé til eflingar annarrar atvinnustarfsemi í byggðarkjarnanum. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt núgildandi lögum eru greidd 80% af markaðsverði dagsins á undan fyrir afla frístundaveiða í tengslum við ferðaþjónustu.“

Ákaflega loðið orðalag og hér hefði farið betur á því að segja hreint út að það fyrirtæki sem fær til sín byggðakvóta annars byggðalags greiði 80% af markaðverði dagsins til þorpsins sem er andlag byggðakvótans. Það er að segja, Íslandssaga á Suðureyri greiði til Flateyrar og Oddi á Patreksfirði greiði til Tálknafjarðarhrepps. Og þorpin, þar sem sjávarútvegurinn hefur svo mikið látið undan síga eins og raun ber vitni bæði á Flateyri og Tálknafirði fá myndarlegan árlegan stuðning til uppbyggingar atvinnu í sínum ranni.

Og hvað svo?

Nú fara þessar tillögur starfshópsins væntanlega í þinglega meðferð, það er lagabreytinga og reglugerðarbreytinga þörf svo tillögurnar nái fram að ganga. Nú er mikilvægt að málsvarar þeirra byggðarlaga sem hagsmuna eiga hér að gæta fylgist vel með og velji að verja almannahagsmuni.

Bryndís Sigurðardóttir