Súðavík: færir félagsþjónustuna til Ísafjarðar

Súðavíkurhreppur hefur sagt upp samningi sínum við Bolungavíkurkaupstað um félagsþjónustu frá og með 1. mars.

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri segir að samkvæmt áætlunum Súðavíkurhrepps verði félagsþjónusta  innt af hendi með samstarfi við Ísafjarðarbæ. „Miðað er við 1. apríl samkvæmt uppsögn samstarfssamnings um Félagsþjónustu við Djúp, en við áformum að Ísafjarðarbær komi inn í samstarfið fyrir þann tíma svo ekki verði rof á þjónustu.

Við horfum fram á að vera með frekari þörf fyrir þjónustu en veitt hefur verið til þessa, einungis aðrar áherslur og önnur nálgun, enda nýr þjónustuveitandi sem kemur að verkefninu.

Við kunnum Bolungarvíkurkaupstað bestu þakkir fyrir samstarfið á sviðinu og stefnum að því að efla það á öðrum sviðum eftir því sem unnt er.“

Í maí á síðasta ári ákvað sveitarsjórn Súðavíkurhrepps að endurskoða samninginn við Bolungavíkurkaupstað um félagsmálafulltrúa og leita eftir samstarfi við aðra.

DEILA