Milljarðamæringar standa að Starir ehf

Stjórnarmennirnir í Starir ehf. Mynd: Starir.is

Starir ehf er fyrirtæki sem leigir laxveiðiárnar Langadalsá og Hvannadalsá í Ísafjarðardjúpi. Eins og Bæjarins besta hefur sagt frá er einn eigenda þess Ingólfur Ásgeirsson, flugstjóri og stofnandi The Icelandic Wildlife Fund (IWF). Ingólfur á 1/3 hlut í félaginu og  Wings Capital hf. á 2/3 hlut. Samstarfsmenn Ingólfs eru Davíð Másson og Halldór Hafsteinsson og eru þeir þrír saman í stjórn Stara ehf. Þeir Davíð og Halldór eru báðir búsettir í Sviss.

Wings Capital hf

Wings Capital hf. er hlutafélag og tilgangur félagsins er að vera eignarhaldsfélag sem fjárfestir í ferðaþjónustufyrirtækjum ásamt öðrum. Skuldlaus eign Wings Capital er 1.358 milljónir króna. Hagnaður þess 2018 var 99 m.kr og árið áður var hagnaðurinn 270 milljónir króna. helsta eign félagsins er 27,67% eignarhlutur í Artic Atventures hf sem bókfærður er á 1.175 milljónir króna.

Eigendur að Wings Capital hf eru hlutafélögin Einiber ehf með 44,44% og Ablos ehf einnig með 44,44% og Halldór Hafsteinsson sem á 11,11%.
Einiber ehf

Einiber ehf var 2018 með litlar tekjur 5,5 m.kr. en nánast engin útgjöld. Skuldlaus eign þess er 163 milljónir króna í lok árs 2018. Eigendur eru Davíð Másson og Lilja Ragnhildur Einarsdóttir með 50% hvort.  Umrædd Lilja er einmitt stofnandi IWF ásamt Ingólfi Ásgeirssyni.

Ablos ehf

Hinn stóri eignaraðili að Wings Capital hf er hlutafélagið Ablos ehf. Tilgangur félagsins er rekstur eignarhaldsfélaga. Þar eru eigendur að jöfnu Halldór Hafsteinsson og Sigurlaug Hafsteinsson. Fyrirtækinu gekk vel á árinu 2018 og skilaði 923 milljónum króna í hagnað sem er að mestu tilkominn vegna hagnaðar í dótturfélögum. Skuldlaus eign félagsins er 1.131 milljón króna í lok árs 2018.

Eftir því sem næst verður komist mun félagið hafa hagnast á leigu á flugvélögum og skyldum rekstri.

 

Stjórnarmennirnir þrír í Starir ehf eru umsvifamiklir í leigu á laxveiðiám og sölu veiðileyfa og þjónustu við stangveiðimenn, í ferðaþjónustufyrirtækjum og rútuútgerð og loks viðskiptum með flugvélar. Samtals er eigið fé ofangreindra fyrirtækja um 2,5 milljarður króna. Það fer ekki á milli mála að þótt The Icelandic Wildlife Fund hafi aðeins haft 13 milljónir króna í tekjur 2018 og eignir séu hverfandi, að þá standa  fjárhagslega sterkir bakhjarlar að sjálfseignarstofnuninni sem alveg sérstaklega hefur það á verkefnaskránni að vinna gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

DEILA