Mikill verðmunur milli matvöruverslana

Í flestum tilfellum var mjög mikill munur á hæsta og lægsta verði milli matvöruverslana í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var þriðjudaginn 18. febrúar. Í um helmingi tilvika eða 58 tilfellum af 118 var munur á hæsta og lægsta verði yfir 40%. Lægsta verðið var oftast í Bónus en hæsta verðið var oftast í Iceland.

Bónus var lang oftast með lægstu verðin í könnuninni eða í 78 tilfellum af 118 en Krónan var næst oftast með lægstu verðin, í 13 tilvikum.

Iceland var oftast með hæstu verðin, í 58 tilfellum af 118 en Kjörbúðin næst oftast, í 26 tilvikum.

Almennt var mjög mikill verðmunur milli verslana í verðkönnuninni en í 31 tilviki var milli 40 og 60% munur á hæsta og lægsta verði og í 27 tilvikum var hann yfir 60%. Það þýðir að í um helmingi tilvika var munurinn yfir 40%.

Dæmi um verðmun í könnuninni var 179% munur á hæsta og lægsta kílóverði af Neutral Storvask þvottaefni. Hæst var verðið í Nettó Granda, 1.214 kr. kg en lægst í Bónus, 435 kr. kg.
Mikill munur var einnig á kattamat en 47% munur var á hæsta og lægsta verði af 1,75 kg poka af Wiskas þurrmat. Lægsta verðið var í Bónus, 879 kr. en það hæsta í Kjörbúðinni, 1.289 kr.
Að lokum má nefna 103% verðmun á frosnum ýsubitum sem kostuðu minnst, 1.298 í Bónus en mest, 2.639 kr. í Kjörbúðinni.

Könnunin var framkvæmd í eftirtöldum verslunum: Nettó Granda, Bónus Skeifunni, Krónunni Granda, Fjarðarkaupum, Iceland Vesturbergi, Hagkaup í Kringlunni, Kjörbúðinni Sandgerði, Heimkaup.is og Netto.is.

DEILA