Ísafjörður: heiðursmannasamkomulag vanefnt

Hafdís Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ og fyrrverandi formaður bæjarráðs segir að þegar samið var um starfslok hafi Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi bæjarstjóri óskað eftir að gert yrði heiðursmannasamkomulag, milli hans og meirihlutans, um að trúnaði yrði haldið um aðdraganda starfslokanna.

„Var það gert munnlega. Nú hefur hann marg oft vanefnt það samkomulag með ítrekuðum viðtölum í fjölmiðlum. Ljóst er að umræðan hans er farin að bitna á okkar litla samfélagi og getum við því ekki setið hjá lengur“ segir Hafdís og boðar viðbrögð frá meirihlutanum.

Í morgun birtist ítarlegt viðtal við Guðmund Gunnarsson í Mannlífi þar sem hann lýsir samstarfinu við meirihluta bæjarstjórnar. Þar segir Guðmundur að ágreiningur hafi verið frá upphafi um nálgun og aðferðir og að ekki hafi verið samstaða um stöðu bæjarstjórans og hlutverk. Lýsir Guðmundur því svo að hlutverk hans hafi verið að vera starfsmaður og taka við skipunum án þess að hafa sjálfstæða rödd. honum hafi ekki hugnast sú nálgun. Ágreiningur hafi komið upp um upplýsingagjöf bæjarstjóra til kjörinna bæjarfulltrúa  í kjölfar snjóflóðanna. Á sáttafundi með meirihluta bæjarstjórnar hafi hann staðið einn gegn bæjarfulltrúunum. Guðmundur segir einnig í viðtalinu að honum hafi verið settir afarkostir um samskipti og hafi hann orðið að bera daglega mál undir formann bæjarráðs og lýsir því þannig að hann hafi átt að vera strengjabrúða.