Ísafjarðarbær: styrkir hreinsun á Hornströndum

Umhverfis- og framkvæmdanefnd ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkt verði styrkbeiðni um hreinsun á Hornströndum sem samtökin Hreinni Hornstrandir munu standa fyrir í júní næstkomandi.

Í erindi til Ísafjarðarbæjar sem Gauti Geirsson sendir segir að frá 2014 hafi verið farin ferð norður í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki á Ísafirði og hafi leiðangursmenn notið liðveislu Landhelgisgæslunnar sem hefur sent varðskip til verkefnisins með sjálfboðaliða. „Tilgangur ferðarinnar hefur verið tvíþættur, annars vegar að hreinsa strandlengjur friðlandsins á Hornströndum og vonandi verða öðrum innblástur um að hreinsa sitt nærsvæði.
Hins vegar að reyna að fá fólk til þess að huga að neyslu sinni og umgengni með plast, á það bæði við almenning og sjómenn.“

Í ár er stefnt að því að fara í Smiðjuvík, næstu vík norðan við Barðsvík sem
hreinsuð var í fyrra, auk þess að hreinsa Bjarnarnes og svæðið þar í kring eftir því sem
aðstæður leyfa.

Ætlunin er  að fara á föstudegi, gangandi eða siglandi yfir í Smiðjuvík þar sem
gist yrði í tjöldum. Hreinsaðar yrðu fjörurnar á laugardegi og sunnudegi og siglt til baka með ruslið á sunnudeginum með varðskipinu.

Farið er þess á leit við Ísafjarðarbæ að framlag bæjarfélagsins til verkefnisins verði það sama og undanfarin ár og að upplýsingafulltrúi Ísafjarðarbæjar haldi utan um skráningu í ferðina og að kosta förgun á ruslinu.

„Framlag Ísafjarðarbæjar hefur verið mjög mikils virði frá upphafi og þáttaka bæjarfélagsins ein af meginstoðum hreinsunarinnar“ segir í erindinu.

DEILA