Hefur teiknað öll hús á Flateyri í þrívídd

 

Flateyringurinn Bjarni Sveinn Benediktsson hefur teiknað í þrívídd öll hús á Flateyri eins og byggðin var 1994. Bjarni flutti frá Flateyri 1990 en keypti aftur íbúð fyrir fjórum árum.

„Ég byrjaði nú bara á þessu þegar að ég keypti gömlu íbúðina mína aftur á Hjallavegi 16. Flateyri fyrir fjórum árum síðan, þá teiknaði ég hana upp vegna breytinga sem ég gerði á henni og síðan ákvað ég að teikna allt húsið sem eru 6 íbúðir. Þá langaði mig til að teikna upp öll hús sem fóru í snjóflóðunum 1995 og eftir það voru Flateyringar að hvetja mig til að klára alla eyrina svo ég kláraði það í des 2019.“

Bjarni bætir svo við. „En svo er ég búin að teikna mörg hús upp sem er löngu búið að rífa og hef hugsað mér að nota þau þegar að ég set saman mynd sem gæti verið frá ca 1970 þannig að það er hægt að dunda svolítið í þessu lengur.“

bjarni veitti Bæjarins besta leyfi til þess að birta myndbandið sem er hér að neðan. Ein sog sjá má er þetta mikið verk sem hann hefur unnið  og hefur ótvírætt menningarsögulegt gildi. Það er líklega einsdæmi að heilt þorp skuli vera til svona nákvæmlega skrásett.