Halldór Hermannsson

Hann var vestfirskur víkingur. Einn af þeim allra bestu. Hann vakti athygli hvar sem hann fór, með sinni sterku rödd og vasklegu framkomu. Ég minnist Dóra fyrst í Gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Í landsprófsdeild veturinn 1949-50 voru óvenju margir karlkyns nemendur. Þetta voru glæsilegir strákar og vöktu athygli okkar stúlknanna. Dóri Hermanns var einn af þeim og sá sem vakti ekki hvað minnsta athygli fyrir stærð sína og hressilega framkomu. Það hefur alltaf sópað að Dóra hvar sem hann hefur verið.

Ég man hann einnig á dansleikjum í Alþýðuhúsinu á sokkabandsárum okkar. Þar sleppti hann engum dansi, geystist um gólfið með dömurnar í fanginu, oftast þá sem seinna varð konan hans og við hinar öfunduðum hana af dansherranum. Seinna þegar dóttir hans Rannveig og sonur minn Kristján hófu búskap varð vinskapur okkar meiri og nánari. Við eignuðumst sameiginleg barnabörn og hittumst í fjölskyldusamkvæmum og afmælum.

Alltaf var það ánægjulegt að hitta þau hjón Kötu og hann og spjalla við Dóra um pólitík, veðurfar, atvinnumál og hvað eina sem bar á góma. Við vorum ekki í sama flokki í pólitík en það kom ekki að sök, við vorum oft sammála fyrir því, enda bæði unnendur Vestfjarða og vildum heimabyggð okkar allt það besta.

Dóri lét til sín taka á mörgum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í atvinnumálum sem skipstjóri og útgerðarmaður, og í pólitík hafði hann sterkar skoðanir. Var einlægur andstæðingur kvótakerfisins eins og bróðir minn Guðjón Arnar, enda unnu þeir saman í Frjálslynda flokknum um árabil.

Dóri var eins og karlmenn þessa tíma, vinnan var honum mikils virði, hann hafði ekki tíma eða löngun til að stunda einhvern leikaraskap eins og hann kallaði það. Það varð honum því afar erfitt að þurfa að hætta að vinna þegar hann varð sjötugur. Þá vann hann við Ísafjarðarhöfn og sem opinber starfsmaður var honum gert að hætta samkvæmt þeim reglum sem gilda.

Hvenær skyldi koma að því að þeim fáránlegu reglum verði breytt og fólk fái að vinna lengur ef það hefur heilsu og löngun til þess? Karlmenn fæddir fyrir og um miðbik síðustu aldar þurfa sérstaklega á því að halda. Þeir missa lífslöngun og finnst þeir ekki vera lengur til nokkurs gagns. Ég held að þannig hafi Dóra liðið þegar hann þurfti að hætta að vinna. Hann missti tilganginn með því að fara á fætur, missti félagsskapinn og það sem gaf lífinu gildi.

Við hlið hans stóð Kata eins og klettur og börnin hans og tengdabörnin gerðu allt til að létta honum lífið. Fjölskyldan var honum mikils virði, en það var ekki nóg. Heilsan fór að bila og eitt tók við af öðru, læknaheimsóknir, aðgerðir og lyfjagjafir. Hann yfirgaf þennan heim að morgni 22. janúar á heimili sínu á Hlíf. Það gerðist hratt, í anda hans, hann var aldrei lengi að hlutunum. Ég þakka Dóra fyrir alla viðkynningu í gegnum árin. Það var gott að vera í návist hans, honum fylgdi andblær vestfirskrar náttúru. Ég votta Kötu og allri þeirra stóru fjölskyldu innilega samúð. Minning hans mun lifa.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

DEILA