FOSVest boðar til verkfalls

Félag opinberra starfsmanna samþykkti að boða til verkfalls í atkvæðagreiðslu innan félagsins. FOSVest er eitt af aðildarfélögum BSRB og þar voru það einungis bæjarstarfsmenn sem greiddu atkvæði um verkfallsboðun.

Að sögn Viktoríu Kr. Guðbjartsdóttur kusu 51,1% þeirra sem atkvæðisrétt áttu og af þeim studdu 80,6% verkfallsboðunina.

Alls voru greidd atkvæði hjá 17 félögum innan BSRB og Fflagsmenn í 15 félögum samþykktu að boða til aðgerða. Hjá einu félagi, Starfsmannafélagi Garðabæjar, náðist ekki næg þátttaka í atkvæðagreiðslunni. Um 41 prósent greiddu atkvæði en 50 prósent félagsmanna þurfa að greiða atkvæði svo verkfallsboðun sé lögleg. Atkvæðagreiðsla hjá einu félagi, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, er enn í gangi og verða niðurstöður kynntar þegar þær liggja fyrir.

Boðaðar verkfallsaðgerðir hefjast 9. og 10. mars, 17. og 18. mars, 24. mars og 26. mars og frá 31. mars til  2. apríl.

Ótímabundið verkfall hefst frá og með klukkan 00:00 miðvikudaginn 15. apríl 2020.

 

DEILA