Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun greiða sveitarfélögum á Vestfjörðum 568 milljónir króna á þessu ári til þess að jafna tekjur þeirra af fasteignaskatti.
Fasteignamat er mjög breytilegt á landinu eftir staðsetningu og tekjur sveitarfélaga af fasteignaskatti sambærilegra eigna verða því að sama skapi misjafnar eftir því hvar þær eru. Til þess að jafna skatttekjurnar var ákveðið um langt árabil að heimila sveitarfélögum að hækka fasteignamatið og færa það til samræmis við matið á höfuðborgarsvæðinu og leggja svo fasteignaskattinn á hið upphækkaða mat. Með lögum frá 2000 var þessu breytt, þannig að fasteignaeigendur greiða fasteignaskatt af óbreyttu fasteignamati og skattur þeirra lækkaði því en sveitarfélögunum var bætt tekjutapið með framlögum úr ríkissjóði sem fer í gegnum Jöfnunarsjóð Sveitarfélaga.
Á árinu 2020 mun Jöfnunarsjóðurinn greiða nærri 5 milljarða króna til sveitarfélaganna til þess að mæta lægri tekjum af fasteignaskatti vegna ofangreindrar breytinga á skattstofninum. Inn á höfuðborgarsvæðið fara aðeins 43 milljónir króna. Sveitarféög á Vestfjörðum fá 568 milljónir króna. Til Suðurlands og Norðurlands eystra fer liðlega 1 milljarður króna á hvort svæði. Austfirsk sveitarfélög fá 663 m.kr. , Reykjanes 650 m.kr. vesturland 549 m.kr. og Norðurland vestra 425 m.kr.
Framlögin skiptast milli sveitarfélaga á eftirfarandi hátt:
Bolungavík 61 milljón króna
Ísafjarðarbær 291 m.kr.
Reykhólahreppur 24 m.kr.
Tálknafjörður 25 m.kr.
Vesturbyggð 84 m.kr.
Súðavík 26 m.kr.
Árneshreppur 9 m.kr.
Strandabyggð 38 m.kr.