Vestfirðir: byggðakvótinn minnkar um 99 tonn

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur lokið við að skipta 5.374 þorskígildistonna byggðakvóta milli byggðarlaga fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Úthlutunin byggir á reglum um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2009/2010 til fiskveiðiársins 2018/2019. Fjögur byggðarlög fá úthlutun á grundvelli samdráttar í vinnslu á rækju, sem veidd er hér við land og nemur samanlögð úthlutun til þessara byggðarlaga 630 þorskígildislestum.

Byggðarlög með færri en 400 íbúa fá 3.384 þorskígildislestum úthlutað sem er 20% aukning sem hlutfall af heildarúthlutun í samanburði við fiskveiðiárið 2018/2019. Byggðarlög með fleiri en 400 íbúa fá 1.990 þorskígildislestum úthlutað.

Úthlutun til Vestfjarða minnkar um 99 tonn mælt í þorskígildum frá síðasta fiskveiðiári.

Til byggðarlaga Í ísafjarðarbæ er úthlutað 1.120 tonnum eins og greint var frá á bb.is í fyrradag. Til Brjánslækjar er úthlutað 15 tonnum og 73 tonnum til Bíldududals. Til Tálknafjarðar er uthlutað hámarkinu 300 tonnum. Súðavík fær 120 tonn. Í Strandasýslu er úthlutað 15 tonnum til Norðurfjarðar, 76 tonnum til Drangsness og 140 tonnum til Hólmavíkur.

Samtals nemur úthlutunin til sjö sveitarfélaga 1.859 þorskígildistonnum. Engum byggðakvóta er úthlutað til Patreksfjarðar og Bolungavíkur. Engin útgerð er í Reykhólahreppi.