Tvær vestfirskar virkjanir í næstu rammaáætlun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hyggst leggja fram óbreytta tillögu til þingsályktunar um verndar- og orkunýtingaráætlun eins og verkefnisstjórn 3. áfanga skilaði henni af sér.  Tillagan gengur undir nafninu rammaáætlun. Þau áform hefur hann kynnt bæði ríkisstjórn og þingflokkum allra stjórnarflokkanna. Málið er á þingmálaskrá í febrúar en á eftir að fara fyrir ríkisstjórn og þingflokka til afgreiðslu.

Þetta staðfestir Orri Páll Jóhannsson aðstoðarmaður Umhverfisráðherra í svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar afhenti umhverfis- og auðlindaráðherra tillögur sínar að flokkun virkjunarkosta  þann 26. ágúst 2016 og hefur tillagan tvisvar verið flutt á Alþingi án þess að hljóta afgreiðslu. Verður þetta í þriðja sinn sem málið verður flutt í þessum búningi verði það niðurstaða stjórnarflokkanna. Telja verður það fremur líklegt að svo verði.

Ekki hróflað við Hvalárvirkjun

Þetta þýðir að ekki verður hróflað við Hvalárvirkjun sem þegar hefur verið samþykkt í fyrri rammaáætlun sem virkjunarkostur. En auk þess er lagt til að Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal bætist í orkunýtingarflokk áætlunarinnar.  Sú virkjun hefur 35 MW afl og 228 GWh orkugetu. Eru þá með Hvalárvirkjun tveir vestfirskir kostir í virkjunarflokki.

Aðrir virkjunarkostir á Vestfjörðum eru ekki nefndir í tillögum verkefnisstjórnarinnar, hvorki í biðflokki né verndarflokki.