Súðavík: Kiwanis gefur til leikskóla

Það skein mikil gleði úr augum barnanna á Leikskólanum Kofrasel í Súðavík þann 7. janúar. Þá færðu félagar úr Kiwanisklúbbnum Básum þeim að gjöf margvísleg þroskaleikföng frá ABC skólavörum. Anna Lind Ragnarsdóttir skólastjóri veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd skólans og sagði við það tækifæri að þetta kæmi að mjög góðum notum í skólastarfinu.

Básafélagar eru engan veginn hættir að styðja við börnin enda er eitt af markmiðum Kiwanis stuðningur við þau. Ætla þeir í vetur að styðja alla leikskóla Ísafjarðarbæjar ásamt Bolungarvík og Súðavík.

Nú þegar hafa þeir afhent Kofraseli og Eyrarskjóli á Ísafirði sínar gjafir. Mun verða sagt frá hinum styrkveitingunum jafnóðum og þær koma til framkvæmda . Félagsstarf í Básum er á jafnri uppleið og hefur orðið fjölgun í klúbbnum en alltaf er pláss fyrir fleiri sem vilja láta gott af sér leiða.