Rafmagn: aðalvandinn utan Vestfjarða

Vestfjarðastofa hefur tekið saman greinargerð um ástandið á innviðum á Vestfjörðum. Greinargerðin er unnin fyrir átakshóp fimm ráðuneyta sem skipaður var í desember 2019.

Þar segir í kaflanum um rafmagnsleysi að aðalvandi orkukerfisins hafi að þessu sinni verið utan Vestfjarða þ.e. bilanir í tengivirki í Hrútatungu og að einhverju leiti á Glerárskógum sem höfðu keðjuverkandi áhrif á flutningskerfið á Vestfjörðum.

Bilun á varð reyndar á aðalflutningslínu á norðanverða Vestfirði yfir Flatafjall á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, en þar sem fyrirfram var búið að aftengja norðan og sunnanverðra Vestfjarða olli það ekki straumleysi. Nýr jarðstrengur um Dýrafjarðargöng mun leysa þessa línu af hólmi segir í greinargerðinni.

Megináherslur Orkubús Vestfjarða eru þessar:

Raforkukerfi á Vestfjörðum er það veikasta í landinu og varaaflsstöðvar eru miðlægar í því kerfi.

Viðbragðsáætlanir virkuðu fyrir þéttbýli á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum en vandamál voru í Reykhólahreppi og Árneshreppi.

Afhendingargæði varaafls yfir lengri tíma litið geta verið verri en almennt gerist þ.e. orkuþörf er meiri en hægt er að afhenda.

 

Lýsing Orkubúsins er þessi:

Í aðdragandaóveðurs var neyðarnefnd OV kölluð saman. Haft var samband við öll svæði og allar varaaflsstöðvar höfðu verið keyrðar upp viku áður og voru í lagi.

Vegna veikleika flutningskerfis þá eru varaaflsstöðvar á öllum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum og skilgreindum svæðum s.s. Inndjúpi. Stærsta stöðin, varaaflstöð Landsnets í Bolungarvík var keyrð upp samkvæmt viðbragðsáætlun og sinnti norðanverðum Vestfjörðum um leið og Mjólkáarvirkjun var aftengd og sinnti þá eingöngu sunnanverðum Vestfjörðum.

Á Reykhólum voru eldsneytisbirgðir fyrir 2,5 sólarhringa, sem kemur nú í ljós að er of lítið og brugðist við með því að sækja eldsneyti í skip Þörungaverksmiðjunnar. Tankur tekur meira, en óvanalegt er að svona langt tímabil standi yfir. Varavél sem komið var á Reykhóla til viðbótar varaflsvél, bilaði í miðjum klíðum, ekki hægt að koma henni inn á netið, samfösun tókst ekki. Vandi kom í ljós með launafl á nýjum jarðstrengjum og réði varaafl ekki við það og verður að setja upp nýtt rofahús og spólu miðja leið, við Hríshól. Mikið álag var á starfsmann OV á svæðinu.

Árneshreppur var illa settur, þar fór rafmagn af í langan tíma, en íbúar vita að ekki er hægt að treysta á dreifikerfið (einfasa) og hafa eigið varaafl og aðrar bjargir með eldun og húshitun.

Vandi er síðan í mesta dreifbýlinu, þar sem erfitt getur verið að reka varaafla á víðfeðmu dreifikerfi um leið og þau eiga að anna þéttbýli, dæmi, Rauðisandur, Látrar(Breiðavík), innanverður Hrútafjörður þ.e. Borðeyri, þar sem ekki var hægt að koma varafali frá Hólmavík, þegar Hrútatunga datt út.

Vestfjarðastofa segir að raforkukerfið á Vestfjörðum og afhendingaröryggið sé það lakasta á landinu og vísar í skýrslu Landsnets  því til stuðnings.

Veikleikar raforkukerfisins eru að mati Vestfjarðastofu í grunninn þríþætt og innbyrðis samspil þeirra þátta.

„Orkuvinnsla innan Vestfjarða annar um 40 % eftirspurnar. Flutningskerfi fer um eina og þá jafnframt lengstu aðflutningslínu landsins um erfitt veðurfarslegt svæði og síðan tekur við dreifikerfi á strjálbýlu svæði. Afhendingaröryggi er því í grunninn veikt en reynt er að mæta því með kerfi varaaflsstöðva.Úrbætur verða samtímis laga núverandi stöðu en um leið horfa til framtíðar og mæta vaxandi eftirspurn eftir orku.“

DEILA