Norðvesturkjördæmi: fylgið hrynur af Vinstri grænum

Fylgi Vinstri grænna er aðeins 4,4% í Norðvesturkjördæmi samkvæmt síðustu könnum MMR um fylgi stjórnmálaflokkanna. Vikmörkin eru um 3%.  Flokkurinn fékk 17,8% fylgi í kjördæminu í alþingiskosningunum 2017. Fylgi Vg mælist 11,1% á landsvísu. Vikmörkin eru liðlega 1%.

Könnunin var gerð 3. – 13 . janúar 2020. Alls voru liðlega 2000 svarendur í heild, þar af rúmlega 200 í Norðvesturkjördæmi.

Samkvæmt þessu er fylgi Vinstri grænna aðeins um 1/4 af því sem það var haustið 2017. Þetta er mjög svipað og kom fram í könnun MMR í júlí á síðasta ári en þá mældist fylgið 6,7% á Vestfjörðum og á Vesturlandi. Í þeirri könnun voru Húnavatnssýslur og Skagafjörður mældar með Norðurlandi svo kannanirnar tvær eru ekki alveg sambærilegar.

Sósíalistaflokkurinn mælist með 7,1% fylgi  í kjördæminu og er fylgi flokksins hvergi meira í öðrum kjördæmum. Á landsvísu mælist Sósialistaflokkurinn með 4,1% fylgi og nær ekki 5% lágmarkinu til þess að  fá jöfnunarmenn kjörna.

Miðflokkurinn stærstur

Fylgi annarra flokka í Norðvesturkjördæmi mælist þannig að Miðflokkurinn er stærstur með 20,7% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19,8%, Samfylkingin 15,7% og Framsóknarflokkurinn 15,6%.

Fylgi Pírata og Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi er lágt. Píratar mælast með 6,1% og Viðreisn 3,2%. Flokkur fólksins er með 6,5% fylgi samkvæmt könnuninni. Önnur framboð eru með 0,9%.

Samkvæmt þessari könnun myndu kjördæmaþingsætin 7 skiptast þannig milli flokkanna að Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, og Samfylkingin fengju 2 þingsæti hver og Framsóknarflokkurinn fengi 1.

Ekki er hægt að spá fyrir um það hvar jöfnunarsætið myndi lenda, þar sem það ræðst af landsfylgi flokkanna, en mest fylgi myndi 2. maður Framsóknarflokksins hafa, svo 3. maður Miðflokksins og loks 1. maður Sósíalistaflokksins.