Ísafjörður. Klassík í kirkjunni í kvöld

Hjörleifur Valsson fiðluleikari og Ourania Menelaou píanóleikari flytja verk eftir Ludwig van Beethoven, Piotr Iljits Tsjækovskí, Petr Eben, Arthur Benjamin, Leoš Janáček og fleiri á tónleikum í Ísafjarðarkirkju í kvöld, fimmtudaginn 9. janúar kl 20. Miðasala við innganginn.

 

Hjörleifur Valsson nam fiðluleik við Tónlistarskóla Ísafjarðar, en lauk síðar einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Ósló árið 1993, þar sem aðalkennari hans var Eivind Aadland. Hann hlaut styrk frá tékkneska ríkinu til náms við konservatoríið í Prag. Þar nam hann fiðluleik og kammertónlist í þrjú ár, auk þess að leika með ýmsum kammerhópum og hljómsveitum þar í borg. Hjörleifur lauk Dipl. Mus. gráðu frá Folkwang Hochschule í Essen í Þýskalandi sumarið 2000. Á námsárum sínum í Mið-Evrópu sótti hann m.a. námskeið hjá Grigorij Zhislin, Truls Mörk, Pierre Amoyal, Sergej Stadler og Pavel Gililov. Hjörleifur hefur komið fram á fjölda tónleika víða um Evrópu, starfað með tónlistarmönnum á borð við Mstislav Rostropovitsj, Shlomo Mintz og Gilles Apap, samið, útsett og leikið tónlist fyrir leikhús. Hann hefur margoft tekið þátt í upptökum fyrir útvarp, sjónvarp, kvikmyndir og hljómplötuútgáfur. Hjörleifur hefur verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi um margra ára skeið, en er nú búsettur í Noregi.

Ourania Menelaou píanóleikari og tónlistarfræðingur er fædd á Kýpur. Hún útskrifaðist frá konservatoríinu í Prag árið 1996 en hélt áfram námi í tónlistarfræði við Karls Háskólann í Prag hvaðan hún útskrifaðist með meistaragráðu. Ourania nam píanóleik við Háskólann í Iowa árið 2003 hjá Uriel Tsachor og lauk framhaldsnámi í píanóleik árið 2006. Hún hefur komið víða fram á kammertónleikum, bæði sem sólóisti og sem píanisti og hefur leikið með tónlistarmönnum á borð við Hjörleif Valsson, Peter Zazofsky, Doriot Anthony Dwyer, Terry King og Annette-Barbara Vogel. Þá hefur hún komið fram á tónleikum í Grikklandi, á Kýpur, í Þýskalandi, Noregi, á Íslandi og í Bandaríkjunum. Ourania hefur tekið upp tónlist fyrir útvarpsstöðvar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Sem tónlistarfræðingur, hefur hún rannsakað píanótónlist frá 19. og 20. öld sem og tónlist tékkneska tónskáldsins Leoš Janáček og gríska tónskáldsins Nikosar Skalkottas auk annarra rannsókna á samtíma píanótónlist í Evrópu. Um þessar mundir rannsakar hún píanótónlist fyrir einleikara frá því eftir árið 1945 við Goldsmiths háskólann í London. 

Vorið 2016 hófu Ourania og Hjörleifur fyrstu röð kammertónleika við New York háskólann í Prag undir yfirskriftinni „New York Express chamber music series“.  Þau leika reglulega á tónleikum um Evrópu, og heimsækja nú Ísafjörð í þriðja sinn sem Dúó.

DEILA