Hvern langar ekki að skrifa?

Hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða er Björg Árnadóttir rithöfundur og ritlistarkennari hjá Stílvopninu með námskeið i endurminningarskrifum ætlað fólki á öllum aldri, jafnt þeim sem skrifa eigin minningar og þeim sem skrifa um samferðafólk sitt.

Námskeiðið fer fram í þremur lotum:

Fyrsta ritsmiðja (17. janúar. kl. 18:00-22:00): Fjallað um minnið og hvernig minningar taka breytingum. Gerðar stuttar ritunaræfingar til að hrista upp í heilasellunum og hrista saman hópinn. Margvíslegar kveikjur notaðar til upprifjunar á andrúmslofti, tilfinningum og atburðum. Stuttir textar skrifaðir og ræddir í hópnum.

Önnur ritsmiðja (18. janúar kl. 10:00-14:00): Ýmsar aðferðir notaðar til að sækja sögur í minnið, deila þeim munnlega og skrifa þær. Rætt um tilfinningalegt og sagnfræðilegt gildi dagbóka og æfingar gerðar sem tengjast dagbókarskrifum. Textar ræddir í hópnum. Kynning á ólíkum aðferðum til að skrá minningar. Rætt um ævisagnaritun og sjálfsbókmenntir og um leiðir til að sækja, skrá og geyma minningar annarra eða eigin minningar um aðra

Þriðja ritsmiðja (19. janúar kl. 10:00-14:00): Rætt um bókmenntafræðilegt, sagnfræðilegt og tilfinningalegt gildi þeirrar íslensku bókmenntahefðar sem kallast minningargreinar og þeir þátttakendur sem kjósa deila minningargreinum sem þau hafa skrifað. Þátttakendur deila því sem skrifað hefur verið á námskeiðinu með hópnum sem ræðir innihald þeirra og frásagnaraðferð. Umræðan fæðir af sér nýjar minningar og nýja texta sem unnið er með eftir aðstæðum hverju sinni.

DEILA