Háskólasetur: Menntabúðir á Vestfjörðum

Gestur í fyrsta Vísindaporti ársins er Margrét Björk Arnardóttir, kennslustjóri Háskólaseturs. Mun hún í erindi sínu fjalla um Menntabúðir eða EdCamp, en það er hugtak sem notað hefur verið yfir samkomu þar sem fólk kemur saman til þess að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum.

Áhersla er lögð á starfsþróun á jafningjagrundvelli og hefur fram að þessu áherslan verið á starfsfólk innan menntakerfisins. Fyrstu Menntabúðirnar á Íslandi fóru fram skólaárið 2013-2014 og hafa síðan þá verið haldnar víða um land við góðar undirtektir. Hugmyndafræðin á bakvið Menntabúðir verður kynnt og hugmyndir að Menntabúðum á Vestfjörðum ræddar. Ef áhugi er fyrir því verður stofnaður undirbúningshópur sem mun sjá um fyrstu Menntabúðir á Vestfjörðum.

Margrét Björk hefur starfað sem kennslustjóri við Háskólasetur Vestfjarða frá janúar 2018. Hún hefur lokið meistaragráðu í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands og BA gráðu í félagsráðgjöf frá University College Lillebælt í Danmörku.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir.

DEILA