Fornbátaskráning

Eljan frá Nesi ÍS 590

Samband íslenskra sjóminjasafna gaf nýverið út fornbátaskrá og leiðarvísi við mat á varðveislugildi eldri báta og skipa. Útgáfan er afrakstur mikillar vinnu undanfarin ár og hefur það að meginmarkmiði að vekja aukna athygli á stöðu bátaverndar í landinu.
Um tuttugu söfn, setur og sýningar um land allt eiga aðild að samtökunum. Fornminjasjóður og Safnasjóður styrktu verkefnin.

Tilgangurinn með gerð fornbátaskrárinnar er að safna upplýsingum um varðveitta fornbáta og gefa yfirlit yfir stöðu bátaverndar í landinu.

Á Íslandi er ekki til bátafriðunarsjóður. Hann hefur lengi verið mikið áhugamál aðildarfélaga sambandsins. Bátafriðunarsjóður hefur verið til umræðu á Alþingi í tvígang, árin 2000 og 2011, en aldrei orðið að veruleika.
Nú er hægt að sækja um styrki í fornminjasjóð fyrir viðhaldi á bátum og skipum, sérstaklega þeim sem eru eldri en 1950. Framlög í sjóðinn eru hins vegar allt of lág til að sinna öllum þeim verkefnum sem honum eru falin, m.a. fyrir það að honum er einnig ætlað að fjármagna fornleifarannsóknir í landinu.

Framlag úr Fornminjasjóði 2013-2019 til báta og skipa var 13,5 millj. króna sem er um 5% af heildarúthlutun sjóðsins á framangreindu tímabili. Á sama tíma hefur Húsafriðunarsjóður veitt styrki til verkefna tengdum verndunar húsa og kirkna að upphæð 1,4 milljarði króna.
Í tilkynningu frá stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna segir að það sé von þeirra að hreyfing fari nú að komast á þessi mál og fjárveitingar til verndunar báta og skipa verði efldar. „Þannig má koma í veg fyrir að fleiri varðveisluhæfir bátar og skip glatist og þar með sá mikilvægi þáttur í sögu landsins sem bátar og skip gegndu.“

Hjá söfnum á Vestfjörðum eru skráðir einir sextíu bátar í misjöfnu ástandi og er því ljóst að þar er mikið verk að vinna

DEILA