Byggðastofnun: breytingar á umsókn ÍS47 rýra trúverðugleika

Frá Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í umsögn Byggðastonfunar um umsókn ÍS47 ehf og samstarfsaðila um sérstakan byggðakvóta á Flateyri segir að umsóknin hafi tekið miklum breytingum í umsóknarferlinu og það rýrir trúverðugleika hennar.

35 störf

Ætlun umsækjanda er að setja upp fullvinnslu á bolfiski og einnig að vinna bleikfisk. ÍS 47 er með langa reynslu í útgerð og á góðan dragnótabát en á engar veiðiheimildir.

Þegar horft er til lengri tíma er ætlun umsækjanda að úthlutun aflamarks verði nýtt til að byggja upp blandaða fiskvinnslu á bleikfiski og hvítfiski. Til lengri tíma verður bleikfiskvinnslan burðarásinn en hvítfiskvinnsla aðal vinnslan fyrsta árið. Að mati umsækjanda mun aflamarkið einnig styðja við fiskmarkað á Flateyri og uppbyggingu á fiskeldi ÍS 47 í Önundarfirði.

Samstarfsaðili ÍS 47, Premium of Iceland eru með bleikfiskvinnslu í Sandgerði og undirverktaka í hvítfiskvinnslu í Keflavík. Félagið hefur öflug sölusambönd án milliliða. ÍS 47 ehf á fínt fiskvinnsluhús á Flateyri. Premium of Iceland ehf ætlar að setja upp fiskvinnsluna í húsnæði ÍS 47 og mun leigja húsnæðið en flytja hluta af núverandi tækjum sínum frá Sandgerði í húsið á Flateyri samhliða því að endurnýja tæki í Sandgerði. Fastafjármunir í verkefnið og fjármögnun eru sögð vera til staðar auk þekkingar á vinnslunni og sölu afurðanna.

Annar samstarfaðili er Magndís ehf. Útgerðarfyrirtækið Hlunnar ehf á Flateyri styður umsóknina og áformað er samstarf milli aðila.

Í umsókn er gert ráð fyrir að ÍS 47 fái 1200 tonna eldisleyfi á Önundarfirði en félagið er núna aðeins með 200 tonna leyfi. Töluverð óvissa er um fiskeldishluta umsóknarinnar segir í lýsingu Byggðastofnunar en gert er  ráð fyrir að fiskeldið geti skapað 13 störf.

Ætlunin er að skapa 8-10 störf í fiskvinnslu og 5 í útgerð skv. umsókninni. Þegar Dýrafjarðargöng opnast og fiskeldi eykst á svæðinu mun störfum í fiskvinnslu fjölga og fara í 20 störf. Í umsókn er gert ráð fyrir að störfum í fiskeldi ÍS 47 fjölgi um 10 fyrir lok samningstímans.  Í heild áætlar umsækjandi að 25 ný störf skapist til viðbótar við þau sem verður viðhaldið.

Byggðastofnun telur óvissu vera um fiskeldisáformin fyrstu tvö árin og þar með starfsmannafjöldann. Eins gerir stofnunin athugasemd við mótframlag fyrirtækisins þar sem það eigi engan kvóta og treysti á almennan byggðakvóta og leigukvóta og segir enga tryggingu fyrir byggðakvótanum fram í tímann.

DEILA