Bolungavík: vill breyta húsnæði í 14 íbúðir

Það er til skoðunar hjá Bolungavíkurkaupstað að breyta húsnæði í eigu bæjarins í íbúðir. Skýrsla frá Verkís var lögð fram og rædd í bæjarráði í lok nóvember síðastliðinn.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að tilgangurinn sé að breyta nýtingu húsnæðis sem er í eigu bæjarins og gera það að íbúðarhúsnæði. Það sé opið á þessu stigi hvernig það verði útfært en áhugi sé á því að fá fjárfesta að verkinu sem annist breytingarnar og jafnvel sjái um sölu og/eða leigu á húsnæðinu. Nefndi Jón Páll til dæmis leiguíbúðafélagið Bríet sem gæti verið eigandinn en Íbúðalánasjóður hefur komið að því fyrir hönd ríkisins.

Húsnæðið sem um ræðir er Heilsugæslustöðin, sem bærinn keypti nýlega af ríkinu, Höfðastígur 7 ( Lambhagi), sem hefur verið nýtt sem leikskóli, Miðstræti 19 (Sjúkraskýlið), Vitastígur 1, sem er skráð sem gistiheimili og Vitastígur 3, en þar er Náttúrugripasafnið nú til húsa.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að Náttúrurgripasafnið verði ekki opið næsta sumar í óbreyttri mynd  og að verið sé að huga að öðru hentugra húsnæði fyrir safnið til framtíðar litið.

Í skýrslu Verkís er gert ráð fyrir að samtals verði 14 íbúðir í þessu húsnæði bæjarins. Sjö íbúðir verði á Vitastíg 1 og 3, fjórar íbúðir í Lambhaga, tvær íbúðir í heilsugæslustöðinni og ein í gamla sjúkraskýlinu.

Verkís skoðaði ástand húsnæðisins og vann gróft kostnaðarmat á breytingum að gefnum forsendum um skiptingu húsnæðisins í íbúðir. Samanlagt er það um 270 milljónir króna. Hæsta upphæðin er til endurbóta á Vitastíg 3 tæpar 100 milljónir króna. Á þessu stigi hafa ekki verið teknar ákvarðanir um hönnun íbúðanna og því eru þessar kostnaðartölur ekki mat á endurbótakostnaði sem verða. Kostnaður verður endurmetinn þegar fyrir liggur nánari útfærsla á íbúðarhúsnæðinu.