Bolungavík: íbúafjöldi verði 1000 árið 2023

Bæjarstjórn Bolungavíkur hefur afgreitt þriggja ára áætlun um tekjur og gjöld fyrir árin 2021 – 2023 auk fjárhagsáætlunar fyrir 2020.  Í áætluninni er gert ráð fyrir því að íbúum fjölgi og verði 1000 í lok árs 2023.

Skatttekjur eru helsti tekjuliður bæjarins og er áætlað að hann hækki um 16% til 2023 og sama hækkun verði á launum , sem eru stærsti útgjaldaliðurinn.  Heildartekjur verða um 1,3 milljarðar króna árlega. Rekstrarniðurstaðan mun batna frá 46 milljónum króna á þessu ári til 58 milljóna króna 2023.

Greiddar niður skuldir

Töluverðar framkvæmdir verða á þessu ári eða 133 milljónir króna. Næstu þrjú ár verður framkvæmt fyrir 58 – 65 milljónir króna á ári. Þessi samdráttur kemur fram í lækkun langtímaskulda úr 877 milljónir króna í 797 milljónir króna í lok árs 2023 eða um 80 milljónir króna.

Skuldahlutfallið sem er nú 107% af skatttekjum kemur til með að lækka í 90% í lok árs 2023  ef áætlunin gengur eftir. Að teknu tilliti til útistandandi skammtímakrafna er skuldahlutfallið 76% af skatttekjum og mun lækka í 57% í ok árs 2023.

Handbært fé í árslok er áætlað verða 45 milljónir í lok þessa árs og mun hækka í 136 milljónir króna í lok árs 2023.

DEILA