Vesturbyggð: Útgjöld til fræðslumála aukast mikið

Fram kemur í greinargerð sem fylgir með tillögu að fjárhagsáætlun 2020 fyrir Vesturbyggð að útgjöld til fræðslu- og uppeldismála muni aukast úr 519 milljónum króna í 554 milljónir króna. Í greinargerðinni segir að útgjöldin hafi verið að „aukast jafnt og þétt í samræmi við jákvæða íbúaþróun, þar sem ungu fólki er að fjölga sem og börnum. Áætlunin gerir því ráð fyrir sérstöku framlagi í úttekt og greiningu á rekstri og skipulagi grunn- og leikskóla í Vesturbyggð og mun sú vinna hefjast strax á nýju ári. Áfram verður boðið upp á talþjálfun og sálfræðiþjónustu í skólum Vesturbyggðar.“

Skólastarf á Bíldudal fer fram á nokkrum stöðum í þorpinu. Í fjárhagsáætlun 2020-2023 er gert ráð fyrir að ráðist verði í úttekt á framtíðarmöguleikum húsnæðis fyrir skólastarf, bókasafn, félagsstarf aldraða og aðra þjónustu sveitarfélagsins á Bíldudal.

Grunnskólar í Vesturbyggð

Framlög til grunnskóla Vesturbyggðar verða 314 milljónir króna í stað 306 milljón króna á þessu ári.

Tónlistaskóli Vesturbyggðar

Fjárhágsáætlunin gerir ráð fyrir að framlög til tónlistarskólans í Vesturbyggð verði 22,5 milljónir króna á árinu 2020 og lækkar framlagið milli ára, en í áætlun 2019 var gert ráð fyrir 26 milljónum króna. Gjöld vegna tónlistarnáms hækkar um 2,5% en gjöld vegna tónlistarnáms í Vesturbyggð eru mun lægri en hjá öðrum sveitarfélögum.

Leikskólar Vesturbyggðar

Framlög til leiksskóla verða 136milljónir króna en voru áætluð 135 milljónir króna í fjárhagsáætlun 2019. Á árinu 2019 var elsti árgangur barna á Arakletti flutt undir leikskóladeild í Patreksskóla. Ráðinn var deildarstjóri yfir deildinni og ráðist var í miklar framkvæmdir innandyra og utandyra við Patreksskóla sumarið 2019. Áfram er aukning á leikskólanum Arakletti og eru börnin 42 talsins nú í vetur. Áfram verður við það miðað að börn komist inn á leikskóla í Vesturbyggð við 14 mánaða aldur. Leikskólagjöld hækka um 2,5% í samræmi við aðrar gjaldskrárhækkanir hjá sveitarfélaginu en gjald vegna máltíða og hressingar haldast óbreytt milli ára