Rafmagn: staðan kl 22, rafmagnslaust í Djúpinu

Orkubú Vestfjarða hefur gefið út yfirlit yfir stöðuna á Vestfjörðum kl 22 í kvöld:

Búið er að spennusetja Mjólkárlínu frá Geiradal að Mjólká.

Norðanverðir Vestfirðir

Allir notendur eru með rafmagn frá varastöðinni í Bolungarvík og varastöðinni í Súðavík nema í Valþjófsdal og á Ingjaldssandi í Önundarfirði.

Sunnanverðir Vestfirðir og Dýrafjörður

Allir notendur eru með rafmagn frá Mjólkárvirkjun.

Hólmavík og Strandir

Hólmavíkurlína sló út og þá duttu Reykhólar og Króksfjarðarnes einnig út, en voru settir inn fljótlega aftur.
Verið er að skoða Hólmavíkurlínu en á meðan verður unnið að koma inn varaafli.

Bilun er á Drangsneslínu og er varaafl keyrt fyrir þéttbýlið á Drangsnesi. Bjarnafjörður og sveitin í kring hefur verið rafmagnslaus frá því fyrr í dag.

Reykhólar

Rafmagn er á Reykhólum og sveitinni í kring frá Geiradal.

Ísafjarðardjúp

Rafmagnslaust er í Djúpinu og ófært að varastöðinni í Reykjanesi. Skoðað verður að keyra varaafl frá Hólmavík ef það tefst að koma Hólmavíkurlínu inn.