Mateusz Klóska íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2019

Mateusz Klóska var í gær útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Þetta er í fyrsta skiptið sem blakari hlýtur þennan eftirsótta titil.  Mateusz hefur verið besti leikmaðurinn í karlaliði Vestra í blaki undanfarin ár. Hann átti stóran þátt í sigri Vestra í 1. deild á árinu og spilar nú með liðinu í úrvalsdeild.

Mateusz er stigahæsti maður Vestra nú þegar tímabilið er hálfnað og er einnig með þeim stigahæstu í allri deildinni. Þjálfarar og leikmenn úrvalsdeildar völdu nýverið Mateusz í draumalið fyrri hluta tímabilsins í Mizuno deildinni í blaki.

Mateusz er góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn og jákvæður og hjálpsamur liðsfélagi egir í frétt frá blakdeild Vestra.

Það voru Elísabet Samúelsdóttir formaður íþrótta- og tómstundanefndar og Kristján Kristjánsson forseti bæjarstjórnar sem tilkynntu valið og afhentu Mateuszi viðurkenninguna.

 

Við sama tilefni var efnilegasti íþróttamaðurinn útnefndur en það var hún Linda Rós Hannesdóttir úr Skíðafélagi Ísfirðinga sem hlaut þann titil. Þá voru þær Guðríður Sigurðardóttir og Rannveig Pálsdóttir heiðraðar fyrir störf sín í þágu lýðheilsu kvenna en þær hafa staðið fyrir leikfimitímum fyrir konur í íþróttasalnum við Austurveg tvisvar í viku í yfir 40 ár.