Fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis : miður sín yfir aðstöðumun

„Ég er miður mín vegna þess að mér finnst hafa afhúpast hve mikill munur er á aðstöðu fólks og mér hefur ekki tekist betur til að tala máli þeirra.“ segir Haraldur Benediktsson, alþm. Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í færslu á facebook síðu sinni á föstudaginn og er þar að vísa til víðtæks rafmagnsleysins í kjördæminu vegna óveðursins.

Hann segist hafa reynt í 15 ár að tala fyrir hagsmunum fólks sem býr á landsbyggðinni og segist hafa skynjað stuðning og skilning þeirra sem búa í á svonefndu höfuðborgarsvæði.

„Samt er það þannig að íbúar landsbyggðar, sveitanna, horfa framan í mun allt aðrar aðstæður en meginþorri landsmanna. Við þolum hærri kostnað við flutning á rafmagni. Verri tengingar. Minni gæða þeirra tenginga. Við örfáir íbúar sveitanna þurfum að byggja upp og viðhalda ógnar stóru dreifikerfi – eftir að hafa á árum áður tekið þátt í að byggja upp með gjöldum okkar fyrir uppbyggingu á svonefndum þéttbýlissvæðum. Það berum við nú ein. En það er samt kerfið sem á að vera grunnur að því allir geti notið þess að skipta um orkugjafa fyrir bíla – svo eitthvað sé nefnt. Samt er mest allt rafmagn framleitt í virkjunum sem standa í sveitum – flutt með kerfum sem liggja um lönd bænda.“

Haraldur segist hafa beitt sér fyrir úrbótum ma á fjarskiptum. „Sem núna bregðast því við höfum ekki hugað nægjanlega að öryggi þeirra“ segir hann.

„Ég hef staðið með iðnaðarráðherra að þoka fram smávægilegum útbótum í aðgengi að rafmagnstengingum sem þarf við nútímatækni. En það er alltof lítið og mögulega sumstaðar of seint.“

Fær velgju

Um ummæli ýmissa stjórnmálamanna nú segir Haraldur:

„Því veldur það mér velgju að horfa, hlusta og sjá pólitíska samherja, pólitiska andstæðinga hoppa nú til og vilja gera mikið. Ég veit að pólitík er málamiðlun. Látið mig þekkja það – ég hef haft að starfi að sitja í fjárlaganefnd frá 2013 – ég veit um öll átökin á bakvið allar þær málamiðlanir sem þarf að gera.

Ég veit lika um skammtímahugsun sem liggur að baki því að rækta ekki, að styrkja ekki grundvöll að atvinnugreina þeirra sem á landsbyggðinni lifa. Skammsýnin sem hefur veikt td. matvælaframleiðslu sveitanna.“

 

Ber ábyrgð

Færslunni lýkur Haraldur með þessum orðum.

„Ég ber mína ábyrgð.

Við búum við óblítt veðurfar – það verða áföll.

Setjum fólkið í fyrsta sæti en ekki pólitíka tækisfærismennsku.

Ég segi það aftur; ég er miður mín – en ekki að gefast upp.

Ekki frekar en það fólk sem er að berjast við afleiðingar af óveðrinu. Það eru menn og konur ársins -ef einhver á slíka heiðurnafnbót skilið.

En hvernær hefur svosem verið þolinmæði fyrir að pólitíkus segjist finna til?“

 

DEILA