Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir í bókun fyrir helgi um tillögu Byggðastofnunar um sérstakan byggðakvóta til 6 ára að bæjarráði hafi kynnt sér áform umsækjenda og haldið með þeim fund en árétti að sá kostur sem Byggðastofnun hefur kynnt er tillaga Byggðastofnunar sem á eftir að hljóta staðfestingu stjórnar stofnunarinnar.
„Sem samráðsaðili telur bæjarráð Ísafjarðarbæjar mikilvægt að horft sé til þess hvaða áhrif úthlutun á aflmarki Byggðastofnunar hefur á núverandi útgerð og vinnslu á Flateyri. Bæjarráð leggur áherslu á að við úthlutun aflamarks stjórnar Byggðastofnunar séu heildar hagsmunir byggðalagsins hafðir að leiðarljósi og aflamarkið nýtist til sem mestrar verðmætasköpunar þar.“
Athyglisvert er að bæjarráðið gefur ekki upp neina afstöðu til tillögunnar um það við hvern verði samið. Þá er ekki að finna í fundargerð bæjarráðs um það hvenær fundurinn var haldinn og með hverjum.
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri sagði í svari við fyrirspurn Bæjarnis besta að allir umsækjendur hafi verið boðaðir til fundar. Þrír af þeim mættu. Aðrir höfðu samband símleiðis.
„Að beiðni Byggðastofnunar er málið bókað sem trúnaðarmál þar til eftir fund stjórnar Byggðastofnunar í dag 17.des. Þar er þetta mál til umfjöllunar.“