Er Byggðastofnun búin að gefast upp á Flateyri?

Það var mjög áhugaverður fundur haldinn á Flateyri á föstudag, í framhaldi af úthlutun Byggðastofnunar á kvóta vegna byggðafestu á Flateyri. Óðinn Gestsson fór yfir umsókn fyrirtækjanna, það sem stakk mig sérstaklega og kom skýrt fram í upplestri Óðins var að það þyrfti að fækka fiskverkunum á norðanverðum Vestfjörðum, og þetta samþykkir Byggðastofnun.  Það kom einnig skýrt fram hjá Guðna Einarssyni og Óðni Gestssyni að þeir vildu ekkert samstarf með þeim útgerðum sem á Flateyri eru, nei einn af samstarfsaðlinum þeirra ætlar að koma með skip sem verður með heimahöfn á Flateyri og mun landa að þeirra sögn hjá fyrirtækinu á Suðureyri. Þannig geta þeir einnig tekið stærsta hlutann af  byggðakvótanum sem ætlaður er Flateyri og útgerðum sem þar eru fyrir.

Byggðastofnunarkvóti er eitt, byggðakvóti er annað. Þessi gjörningur Byggðastofnunar var löngu ákveðinn – Í leiðbeiningum um byggðakvóta á vef Fiskistofu segir til um hvaða afli telur til byggðakvóta.  Það er meðal annars afli sem ekki hefur áður verið metinn til byggðakvóta, með þessu er nú hægt er að taka krossfisk og sæbjúgu í viðmiðun til byggðakvóta, það hefur aldrei áður verið hægt.

Byggðakvóti og byggðastofnunarkvóti – Íslandsaga og samstarfsaðilar hafa aðgang að um 1500 þorskígildistonnum á norðanverðum Vestfjörðum, ef ekkert breytist. Með Byggðastofnunarkvóta Flateyrar verða þeir með 1900tn takist ætlunarverkið fullkomlega eins og allt bendir til, í yfirferð Óðins á umsókn þeirra þar sem tekið er fram að fækka þurfi fiskvinnslum á norðanverðum Vestfjörðum. Þá bætist við byggðakvóti Flateyrar sem var á síðasta ári 300tn og ef reglur breytast ekki og það sem færist á milli ára, þá gætu mögulega verið um 4-500tn þar í heildina, þá er Íslandsaga og samstarfsaðilar og þá meina ég allir, með um 2400 – 2500 þorskígildistonn sem Byggðastofnunar- og byggðakvóta.

Komum aðeins að minni umsókn, ÍS 47 ehf og samstarfsaðila um Byggðastofnunarkvóta á Flateyri. Mínir samstarfsaðilar voru Premium of Iceland (POI) og Mardís. ÍS 47 ehf á sér langa útgerðasögu, ég hef verið í útgerð frá 1984, verið með eigin útgerð frá 1989, fyrst á eigin kennitölu og frá 2003 sem ÍS 47 ehf. Ég hef verið viðloðandi Flateyri frá 1989 og alfarið með allt mitt frá 2014. POI er með vinnslu í Sandgerði á laxi og silungi og er með sölufyrirtæki í Frakklandi og selur einnig til Þýskarlands og Bretlands. Jónas Finnbogason á fyrirtækið Mardísi og framleiðir vörur undir nafninu Ísfirðingur, sú framleiðsla er á  Ísafirði og hana þekka margir. Jónas ætlaði að sjá um uppsetningu á fiskvinnslu í mínu húsi á Hafnarbakka 6 á Flateyri. Allur Byggðastofnunarkvóti Flateyrar átti að vinnast í mínu húsi á Flateyri, það átti ekki að keyra fiskinum í burtu. Þar ætlaði samstarfsaðili minn POI að setja upp samskonar vinnslu og hann er með í Sandgerði á laxi, silungi og hvítfiski og fjármagna hana alfarið sjálfur. POI kaupir mikið af fiski á mörkuðum og hugðist einnig gera það fyrir vinnsluna á Flateyri, það hefði verið gott að stoppa hluta af öllum þessum óunna fiski sem keyptur er á mörkuðunum hér vestra og keyrður suður. Lax og silungur hefði verið unnin á Flateyri af fiskeldi í nágreninu, þar á meðal mínu fiskeldi í Önundarfirði.  Ég sá fyrir mér að leita leiða til að viðhalda þeim störfum sem fyrir eru á Flateyri með samningum við Hlunnar ehf og Walvis ehf, ef ÍS 47 ehf fengi kvótann.  Áætlað var að vera með um 30-40 störf á Flateyri ef allt gengi eftir, Aldan 5, fiskeldi ÍS 47 ehf ca10 -15 (samkvæmt tölum frá Byggðastofnun um fjölda starfa í fiskeldi per 1.000tn), fiskvinnslan ca20, og til viðbótar að viðhalda þeim störfum sem eru hjá Hlunnari og Walvis, ca10 störf þar. Með þessari úthlutun er Byggðastofnun að stuðla að því að þau störf sem þegar eru á Flateyri leggist af.

Ég get ekki annað en verið sammála Hildi Kristínu Einarsdóttur sem skrifar hér fyrir nokkrum dögum að svo virðist sem Byggðastofnun sé að úthluta sjálfum sér kvóta til næstu 6 ára. Forstjóri Byggðastofnunar segir hér á BB að það fyrirtæki hafi verið valið sem hafi fallið best að viðmiðum um trúverðuga útgerð og vinnslu sjávarafurða, fjölda heilsársstarfa, jákvæð áhrif á atvinnulíf og trausta rekstrarsögu forsvarsmanna umsækjenda. Dæmi hver fyrir sig, gleðileg jól.

Gísli Jón Kristjánsson

DEILA