Straumlaust var í Árneshreppi í samtals 2227 mínútur á árunum 2015-18. Þetta kemur fram í svari Iðnaðarráðherra Þórdísar Gylfadóttur við fyrirspurn Guðmundar Andra Thorssonar, alþingismanns.
Dreifikerfi Orkubús Vestfjarða frá flutningskerfi Landsnets að Árneshreppi eru: Hólmavíkurlína 2, 33 kV lína, Drangsneslína 1 og Norðurlína 1 sem báðaer eru 11 kV línur.
Fram kemur í svari ráðherrans að tengipunktur í Ísafjarðardjúpi muni opna á möguleika á tengingu við dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Slík tenging mundi bæta afhendingaröryggið í dreifikerfinu. Bætt afhendingaröryggi frá flutningskerfinu hefur í för með sér aukið afhendingaröryggi til endanlegra notenda undirliggjandi dreifikerfis.
Þingmaðurinn spyr hvort hugmyndir um að fækka straumleysismínútum á norðanverðum Vestfjarðakjálkanum með tengingu Hvalárvirkjunar, byggingu nýs tengivirkis við Ísafjarðardjúp og tengingu yfir Ófeigsfjarðarheiði og loks yfir Kollafjarðarheiði í enn nýtt tengivirki í Kollafirði séu unnar í samráði við ráðuneytið og ráðherra og spyr ennfremur ráðherrann að því hver muni standa undir fjárfestingunni „í ljósi þess að ítrekað hefur komið fram hjá Landsneti á liðnum árum að tekjur af slíkum fjárfestingum stæðu ekki undir kostnaði?“
Hvalárvirkjun stendur undir kostnaðinum við tengipunktinn
Í svari ráðherra kemur fram að Landsnet byggir upp flutningskerfið í samræmi við raforkulög og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Framkvæmdir Landsnets eru háðar eftirliti Orkustofnunar sem er stjórnvaldið í þessi tilliti.
Þá segir ráðherrann að forsenda nýs tengipunkts í Ísafjarðardjúpi er ný orka sem komi inn á flutningskerfið sem auki flutningstekjur Landsnets og „nýleg greining Landsnets, miðuð við 55 MW uppsetta aflgetu, bendir til að tengigjald og auknar flutningstekjur standi undir kostnaði við slíka tengingu.“