Söngvaseiður á Vestfjörðum

Leiklistarhópur Halldóru setur upp Söngvaseið í tilefni af 10 ára afmæli hópsins. Það var 21. nóvember 2009 sem starfsemin hófst með lítilli sýningu þar sem sýnd voru brot úr Mamma mia, Söngvaseið og Ávaxtakörfunni. Það hefur verið draumurinn stofnanda leikhópsins, Halldóru Jónasdóttur, í 10 ár að setja upp Söngvaseið í nánast fullri lengd og nú er draumurinn loksins að rætast.

Söngvaseiður fjallar um unga konu sem heitir María og ætlar að ganga í klaustur. Hún á erfitt með að fylgja öllum þeim ströngu reglum sem eru í klaustrinu svo hún er send tímabundið út í heim þar sem hún verður barnfóstra sjö barna. Faðir þessara barna er ekkill og fyrrum skipskafteinn. Hann er mikið að heiman og þarf því barnfóstru. Hann setur skýrar reglur, en María vill að börnin skemmti sér svo hún kennir þeim að syngja. Hún tengist þeim fljótt og þau verða bestu vinir.

Söngleikurinn Söngvaseiður eða Sound of music er eftir Rodgers & Hammerstein og fagnar 60 ára afmæli sínu á þessu ári. Árið 1965 ver gerð kvikmynd með sama nafni þar sem Julie Andrews fór með hlutverk Maríu. Þetta er þekkt verk sem oft hefur verið sett upp bæði hér á landi og annars staðar í heiminum. Það eru skemmtileg lög með fallegum textum í sýningunni. Halldóra hefur sjálf séð um þýðingu á textunum og aðlagað leikverkið leikhópnum en í sýningunni taka þátt 31 barn á aldrinum 6-16 ára og eru þau frá Hnífsdal, Ísafirði og Bolungarvík. Æft hefur verið í Barnaskólanum í Hnífsdal en sýningarnar munu fara fram í Félagsheimilinu í Bolungarvík

DEILA