Könnun á hagkvæmni strandflutninga

Ásmundur Friðriksson hefur ásamt 7 öðrum þingmönnum lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu um að kanna hagkvæmni strandflutninga.
Gert er ráð fyrir að haldið verði úti tveimur strandflutningaskipum til að flytja vörur um landið með það að markmiði að minnka vöruflutninga á þjóðvegum og draga þannig úr sliti á vegakerfinu. Í úttektinni verði m.a. skoðaður möguleiki á að nýta skipin til sorpflutninga og sem björgunarskip í neyðartilfellum. Jafnframt verði skoðuð hugsanleg aðkoma ríkis og sveitarfélaga að slíku verkefni.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skili skýrslu og kynni Alþingi niðurstöður hennar eigi síðar en 1. apríl 2020.

Í greinargerð með tillögunni segir að góðar líkur séu á því að sjóflutningar yrðu mun ódýrari en landflutningar. Því gæti endurvakning strandflutninga haft bein áhrif á afkomu heimila og fyrirtækja um land allt. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að skoða hafnargjöld við rekstur strandferðaskipa, en nú eru þau langt umfram þann kostnað sem landflutningar greiða. Strandsiglingar gætu því verið raunhæfur kostur bæði af umhverfislegum og fjárhagslegum ástæðum.

DEILA