Jakobína: Frá Hælavík í Mývatnssveit

Starri og Jakobína árið 1949

Bókaútgáfan Forlagið hefur sent frá sér bókina Jakobína – saga skálds og konu.
Jakobína Sigurðardóttir (1918–1994) var rithöfundur og skáld. Hún fæddist og ólst upp í Hælavík á Hornströndum, einni afskekktustu byggð landsins sem nú er farin í eyði. Hún var elst þrettán systkina en ein systra hennar var skáldkonan Fríða Á. Sigurðardóttir. Jakobína flutti sautján ára gömul alfarin að heiman árið 1935 og foreldrar hennar fluttu burt úr Hælavík tveimur árum síðar. Jakobína flutti til Reykjavíkur og stundaði nám um tíma við Ingimarsskólann og Kennaraskóla Íslands. Einnig vann hún sem kaupakona í Árnessýslu. Árið 1949 flutti hún norður í Mývatnssveit og hóf búskap í Garði II ásamt manni sínum, Þorgrími Starra Björgvinssyni. Þau eignuðust fjögur börn: Stefaníu (1950–2013), Sigrúnu Huld (f. 1952), Sigríði Kristínu (f. 1956) og Kára (f. 1959). Jakobína bjó í Garði það sem eftir var ævinnar en hún lést 29. janúar 1994.

Jakobína – saga skálds og konu veitir dýrmæta innsýn í líf Jakobínu og varpar nýju ljósi á verk hennar. Það er dóttir skáldsins sem segir frá og fléttar listilega saman endurminningar, vandaða heimildavinnu og ögn af skáldskap – því að Bína mætir sjálf í kaffi og hefur uppi ýmsar meiningar um þessa ævisögu sína.

Sigríður Kristín Þorgrímsdóttir sagnfræðingur er fædd í Garði í Mývatnssveit 1956. Hún hefur sinnt margvíslegum ritstörfum gegnum tíðina, en síðast kom út eftir hana femíníska sjálfsævisagan Alla mína stelpuspilatíð.

DEILA