Arnarlax: hagnaður af rekstri um 1 milljarður króna

Rekstrarafkoma Arnarlax fyrstu níu mánuði þessa árs var mun betri en gert hafði verið ráð fyrir. Tekjur umfram gjöld að meðtöldum afskrifum (EBIT) voru 73 milljónir norskra króna eða nærri einn milljarður íslenskra króna. Á þriðja ársfjórðungi ársins var EBIT 22 milljónir norskra króna sem er liðlega þrefalt hærra en greiningaraðilinn Pareto hafði búist við.

Tekjur Arnarlax urðu 152 milljónir norskra króna á þriðja ársfjórðungi en voru aðeins 69 milljónir á sama tíma í fyrra. Framlegðin eða EBIT batnaði verulega, varð jákvæð um 22 milljónir norskra króna, eins og fyrr segir en var neikvæð um 32 milljónir n.kr. á þriðja ársfjórðungi 2018.

Stór hluti skýringarinnar á bættri afkomu milli ára á þriðja ársfjórðungi, skv. upplýsingum Arnarlax, er aukin framleiðsla. Hún varð 2.300 tonn af laxi nú en aðeins 1.200 tonn í fyrra.

Pareto er stórt greiningarfyrirtæki á Norðurlöndum og gaf það út í gær stutta skýrslu um fjárhagslega afkomu norska fyrirtækisins Salmar eftir að fyrir lágu upplýsingar um afkomu þriðja ársfjórðungs þessa árs og greindi Pareto upplýsingarnar á einstök fyrirtæki, sem það á stóran hlut í, þar með talið Arnarlax.

EBIT gefur upplýsingar um tekjur að frádregnum útgjöldum og afskriftum og er mælikvarði á getu fyrirtækisins til þess að standa undir starfsemi sinni og greiða niður skuldir.

Jafnvægi í tekjustreymi

Þessi afkoma sýnir að rekstur Arnarlax er kominn í jafnvægi og tekjustreymi þess er orðið jákvætt segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax hf.

Í greiningu Pareto kemur fram að EBIT/kg hafi verið 9,5 norsk króna á þriðja ársfjórðungi, sem hafi verið mun hærra en þær 3 n.kr.  sem Patreto hafði áætlað. Kjartan segir það vera einkar ánægjulegt í ljósi þess að verð á lax á mörkuðum hafi verið í sögulegu lágmarki síðustu 10 ár á þessum tíma.

Hærra verð fyrir íslenskan eldisfisk

Skýringin á betri afkomu er að sögn Kjartans annars vegar sú að Arnarlax hafi einkum selt stóran fisk, þ.e. þyngri en 6 kg og hins vegar sé greitt hærra verð fyrir íslenskan eldisfisk.

Kjartan segir að ætlunin sé að ná betri árangri í lækkun kostnaðar á hvert framleitt kg af eldislaxi og telur horfur fyrirtækisins góðar sé litið til framtíðar.

Á þessu ári er áætlað að framleiðslan verði um 10 þúsund tonn af eldislaxi og svipað verði framleitt á næsta ári 2020.

Á síðasta ári átti Arnarlax við mótvind að stríða. Mikið tjón varð í febrúar 2018 þegar mikið magn alf laxi drapst í kvíum og varð framleiðslan aðeins 6 þúsund tonn í stað 10 þúsund tonna sem hafði annars verið ráðgert.

Hitt atriðið sem var fyrirtækinu erfitt var ákvörðun úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál að fella úr gildi bæði rekstrar- og starfleyfi fyrir eldi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Kartan viðurkennir að hvort tveggja hafi skaðað fyrir fyrirtækið fjárhagslega  en segir að þegar upp sé staðið hafi fyrirtækið styrkst og segir að framtíð þess  sé björt og rekstrarhorfur séu góðar.

Greiningarfyrirtækið Pareto spáir því að afkoman EBIT verði um 1,2 milljarðar króna á þessu ári. Fyrir næsta ár 2020 er mat fyrirtækisins að EBIT verði 2,6 milljarðar króna og árið 2021 verði EBIT hvorki meira né minna en nærri 5 milljarðar króna.

DEILA