Aðalfundur atvinnurekenda á Patreksfirði

Ólafshús Patreksfirði. Mynd: aðsend.

Aðalfundur Samtaka atvinnurekenda á Sunnanverðum Vestfjörðum var haldinn þriðjudaginn 26. nóvember 2019 í Ólafshúsi á Patreksfirði.

Góð mæting var á fundinn og hugur í félagsmönnum að vinna að þeim hagsmunamálum sem brenna á atvinnurekendum á svæðinu. Það var mál manna að gott samfélag byggist á góðri samvinnu atvinnurekenda, sveitarfélagsins og íbúanna og enginn getur án hinna verið.

Félagið hefur verið í dvala síðastliðin tvö ár en farið var yfir fjölda mál sem það hafði komið að svo sem samgöngumál, flutningsmál, sumarlokanir leikskóla og fleira.  Hugmyndir voru uppi um að halda kynningu á höfuðborgarsvæðinu um hvað svæðið hefði upp á að bjóða fyrir þá sem vilja leggja hönd á plóg í uppbyggingu sunnanverðra Vestfjarða og var tekið vel í að taka þann þráð upp að nýju.

Félagið hefur veitt viðurkenningar fyrir vel unnin störf fyrir samfélagið og hyggst halda því áfram því fólk sem er fullt af eldmóði og vinnur mjög óeigingjarnt starf fyrir samfélagið er ómetanlegt.

Starfsmaður Vestfjarðastofu, Guðrún Anna Finnbogadóttir, kynnti starfsemina og áhersluverkefni næstu ára sem öll hafa það að markmiði að bæta samfélögin á Vestfjörðum.  Þessa dagana er mikil vinna lögð í að tengja saman hagsmunahópa til að fá sterka rödd frá Vestfjörðum í þeim málefnum sem eru í brennidepli hverju sinni.  Fer þar helst stærstu stoðirnar í hagkerfinu sjávarútvegur, fiskeldi, ferðaþjónusta og önnur þjónusta sem er öllum samfélögum nauðsynleg.

 

Í stjórn voru kosnir

Aðalmenn:

Aðalsteinn Magnússon  Allt í járnum Tálknafirði

Björn Hembre  Arnarlaxi Bíldudal

Gunnþórunn Bender  Westfjords Patreksfirði

Halldór Halldórsson  Íslenska kalkþörungafélagið Bíldudal

Kjartan Hauksson  Sjótækni Tálknafirði

Sigríður I. Birgisdóttir  Landsbankinn Patreksfirði

Sigurður Viggósson  Odda hf Patreksfirði

 

Varamenn:

Barði Sæmundsson  Loga ehf Patreksfirði

Jóhann Magnússon  Albínu Patreksfirði

Ragnar Þór Marínósson  Tungusilungi Tálknafirði

Skjöldur Pálmason Odda hf Patreksfirði

 

Stjórn mun halda fund í næstu viku og skipta með sér verkum.

 

DEILA