Mikill stuðningur er við laxeldi í Ísafjarðardjúpi meðal íbúa í Bolungavík. Nærri 90% Bolvíkinga eru jákvæð gagnvart laxeldinu en aðeins 5% eru neikvæð.
Þetta kemur fram í könnun sem MMR gerði fyrir Bolungavíkurkaupstað. Um var að ræða símakönnun og hringt var 23. og 24. október síðastliðinn. Hringt var í Íslendinga 18 ára og eldri búsetta í Bolungavík. Í endanlegu úrtaki voru 235 sem er hátt hlutfall að heildarfjöldanum 647 sem til greina kom. Ekki náðist í 65 og 11 neituðu að svara. Endanlegur fjöldi svara var 159 sem er 25% af heildarfjöldanum í þýðinu.
Þrír fjórðu hlutar þeirra sem voru jákvæðir voru mjög jákvæðir eða 66%. Liðlega 20% voru frekar jákvæðir. Af þeim sem reyndust neikvæðir voru 4% mjög neikvæðir og 1% frekar neikvæðir.
Ekki er mikill munur á afstöðu kynja til laxeldisins, en þó eru karlar heldur jákvæðari. Þar voru 91% jákvæðir en 84% hjá konunum. Andstaðan var svipuð, 4% karla eru neikvæðir en 6% kvenna. Fleiri konur eru hvorki né í afstöðu sinni, 9% á móti 5& hjá körlunum.
Í öllum aldurflokkum er yfirgnæfandi stuðningur við laxeldið. Flestur voru jákvæðir á aldrinum 50 – 67 ára eða 93% og aðeins 4% neikvæðir. Í aldursflokknum 30 – 49 ára voru svipuð viðhorf, 88% eru jákvæð og 6% neikvæð.
Í yngsta aldursflokknum 18 – 29 ára reyndist enginn neikvæður, 85% jákvæðir gagnvart laxeldinu og 15% hvorki né.
Mest neikvæðnin kom fram í eldsta aldursflokknum 68 ára og eldri. Þar voru 11% neikvæðir, en 73% voru jákvæðir og 16% hvorki né.