2017: hagvöxtur á Vestfjörðum 4%

Byggðastofnun hefur birt skýrslu um hagvöxt í einstökum landshlutum á tímabilinu 2012 – 2017. Það er Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem vann skýrsluna í samvinnu við þróunarsvið Byggðastofnunar.

Fram kemur að á árinu 2017 varð 4% hagvöxtur á Vestfjörðum og 5% hagvöxtur á landinu öllu. Langmestur varð vöxturinn á Suðurnesjum eða 16% og síða 7% á Suðurlandi. Það er ferðaþjónustan sem skýrir þetta samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni.

40% minni hagvöxtur á Vestfjörðum

Yfir fimm ára tímabil varð 2,9% hagvöxtur á Vestfjörðum og 4,9% á landinu. Vöxturinn á Vestfjörðum varð því aðeins 60% af hagvexti tímabilsins. Á Suðurnesjum varð 10,4% vöxtur á ári að meðaltali á þessu fimm ára tímabili, á Suðurlandi 5,9% og á höfuðborgarsvæinu 5%. Minnstur varð hagvöxturinn á Austurlandi 1,1% og á Norðurlandi vestra  2,4%. Það er skýrt með því að erlendir ferðamenn leita ekki mikið þangað.  Árið 2017 voru aðeins 4% gistinátta útlendinga á Austurlandi, 2% á Vestfjörðum og 2% á Norðurlandi vestra.

Mynd 1 úr skýrslunni.

Hlutur sjávarútvegs minnkar

Hlutur sjávarútvegs í framleiðslunni á Vestfjörðum minnkar verulega frá 2012 til 2017. Sjávarútvegurinn stóð undir 34% framleiðslunnar 2012 en var kominn niður í 24% fyrir árið 2017. gefnar eru tvær skýringar, annars vegar magnbreytingra og hins vegar hækkandi gengi á þessum árum sem fækkar krónunum og lækkar þannig hlut útflutningsgreina. Á móti hefur opinber þjónusta aukist úr 21% í 26%. Fiskeldið var 2,5% framleiðslunnar 2012 en var komið í 3,8% árið 2017.